140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

21. mál
[16:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins fá að koma inn í þessa umræðu um þingsályktunartillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur o.fl. Ég efast í sjálfu sér ekki um þann góða hug sem fylgir þarna máli en vil að vissu leyti lýsa áhyggjum mínum af því að þarna sé angi af einhvers konar forræðishyggju sem þarf að fara mjög fínt með. Það þarf að undirbúa svona verkefni afskaplega vel og passa að ekki sé stigið á neinar tær.

Ég er algjörlega ósammála því að miða þetta við aldur. 75 ára gamlir einstaklingar eru mjög ólíkir. Ef maður ætti að draga einhverja línu í fjölbreytileika eftir aldri, þ.e. með tilliti til heilsufars, færni, félagslegrar stöðu o.s.frv. sem þetta allt saman tekur til, fær maður sennilega ekki breiðari og fjölbreyttari hóp en akkúrat þennan aldur. Fyrir 10–15 árum hefði ég sennilega dregið sömu línuna einhvers staðar í kringum sjötugt, þ.e. þá hefði sá aldurshópur verið einna breiðastur. Þess vegna ráðlegg ég eindregið þeirri nefnd, væntanlega velferðarnefnd nema það verði umhverfis- og samgöngunefnd af því að þetta á að heyra undir sveitarfélögin, [Hlátur í þingsal.] en látum það liggja á milli hluta, frú forseti, og gerum ráð fyrir að það verði velferðarnefnd sem ég ráðlegg þá að taka aldursskilgreiningarnar út úr. Það er miklu nær í öllu svona að miða frekar við ástand einstaklings. Það er hægt að flagga við einhvern aldur en þá væri sennilega nær að gera það við áttrætt, jafnvel 85. Hugsum út í hvað það getur verið kostnaðarsamt að fara í breiða skimun hjá til dæmis þeim sem eru 75 ára og eldri sem eru á bilinu 15–20 þús. einstaklingar á Íslandi. Ef við köstum neti á þennan hóp erum við að kasta allt of þéttriðnu neti og tökum með allt of marga einstaklinga sem kannski þurfa ekkert á þessu að halda, hafa enga þörf fyrir það og við gætum jafnvel að einhverju leyti verið að snuða fólk með tilboðinu. Ef svona verkefni á að vera á höndum einhvers eða einhverra væri það helst á vegum heilsugæslunnar vegna þess að þar er fyrir þekkingin á stærstum hluta þessara einstaklinga. Langflestir sem eru komnir á efri fullorðinsár, skulum við segja, eru í einhverjum tengslum við heilsugæsluna sína. Mér er kunnugt um að það hafi verið gerðar, svo ég sletti, frú forseti, svokallaðar „pilot“ rannsóknir, þ.e. frumrannsóknir á því innan heilsugæslunnar hversu vel eða illa heilsugæslulæknir þekkir sinn sjúklingahóp 70 ára og eldri. Þekking viðkomandi heilsugæslulæknis eða viðkomandi teymis á heilsugæslustöð er yfirleitt þokkalega góð á þessum einstaklingum. Ef við ætlum að fara í svona verkefni væri nær að horfa til þess að heilsugæslan sé svolítið „drive“ í þessu.

Það truflar mig, frú forseti, að menn ætli að hella sér út í þetta verkefni með reynslu Dana að leiðarljósi, þ.e. ekki vegna þess að Danir séu betri eða verri en Íslendingar heldur vegna þess að það er bara ekki sama þýðið og það íslenska. Þess vegna held ég að það væri jafnvel betra að hugsa sem svo að við samþykktum tillögu eins og þessa sem nokkurs konar tilraunaverkefni, þ.e. fyrir afmarkaðan hóp væri til að mynda hægt að gera þetta í sveitarfélagi eins og á Akureyri þar sem þegar er búið að koma á því fyrirkomulagi að einhverju leyti, þ.e. samvinnu heilsugæslu og heimaþjónustu sem er orðin nokkuð traust í sessi. Þess vegna væri þar líklega besti jarðvegurinn til að prufukeyra svona verkefni.

Það er misjafn árangurinn af því eftir því hvernig menn hafa stillt þessu upp eftir löndum, þ.e. hvaða árangri eða veiðni, ef við getum sagt sem svo, menn hafa náð út úr svona verkefnum. Það fer algjörlega eftir því í hvaða þýði menn eru að leita. Enn sem komið er hafa menn óvíða getað sýnt fram á að í heilsufarslegu tilliti sé kostnaðarhagkvæmnin nóg. Það má vera að menn hafi sýnt fram á það að einhverju öðru leyti, samfélagslegu eða félagslegu tilliti, og það er mjög mikilvægt náttúrlega, það má ekki gleyma því. Kannski þurfum við samt einmitt að skoða þetta sem tilraunaverkefni fyrst og þá væri frekar hægt að útvíkka það.

Sumar heilsugæslustöðvarnar, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, eru nú þegar með einhvers konar lesefni eða bækling sem eldri borgurum er boðið upp á sem þá tilboð þar sem fólk getur beðið um einhvers konar innlit eða þjónustu. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er með iðjuþjálfa á sínum snærum sem fara í heimilisathuganir og ég er nokkuð viss um að sú vinna er flutningsmanni að góðu kunn. Hún getur skilað alveg gríðarlega miklu, svona hnitmiðuð þjónusta.

Ég hef þessa fyrirvara á tillögunni, ég hef svolitlar áhyggjur af því að við séum að stíga á tær, ég mundi alls ekki nota aldursviðmið, ég held að heilsugæslan væri vettvangurinn og ef á að fara í svona verkefni á að reyna það sem tilraunaverkefni.