140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég efast um að nokkurt sveitarfélag á landinu hafi lagt jafnmikið á sig til að efla ferðamennsku á svæðinu, bara svo því sé haldið til haga. Það eru nokkur atriði sem ég ætla að leyfa mér að leiðrétta hér í umræðunni. Ég harma niðurstöðu iðnaðarráðherra og óskaði þess að hún yrði sanngjarnari í málflutningi.

Því er haldið fram að það sé skammsýni íbúa í Þingeyjarsýslum að hafa lagt trúnað á þetta verkefni. Sannleikurinn er einfaldlega sá að sveitarfélögin öll töldu þetta skynsamlegt og vildu vinna í sameiningu að uppbyggingu álvers á Bakka. Af hverju? Jú, vegna þess að þetta var einfaldlega besti kosturinn að vandlega ígrunduðu máli. Það er algjörlega í samræmi við þær hagkvæmnirannsóknir sem meðal annars þessi ríkisstjórn gerði. Af hverju áttu íbúarnir að einbeita sér að einhverju öðru ef hagkvæmnirannsóknir sýndu að þetta væri langbesta verkefnið til að skapa störf? Það er rangt að halda því fram að sveitarfélögin hafi ætlað að ná fram skyndilausnum. Það er búið að vinna að þessu verkefni frá árinu 1976. Fjölmörg verkefni hafa dúkkað upp. Þau eru væntanlega til marks um þetta „eitthvað annað“ en þau hafa einfaldlega ekki verið nægilega sterk til þess að skapa atvinnu sem Þingeyingar vilja stefna að.

Hér segja menn að það eigi að hámarka arðsemi orkunnar, fá sem hæst verð. Vilja menn ekki hugsa þetta aðeins betur? Eigum við ekki einmitt að nýta okkar umhverfisvænu orku til að skapa störf, selja hana ódýrara en nágrannalönd okkar til að skapa störf og byggja upp (Gripið fram í.) innviði samfélagsins? Ég bið fólk og þingheim, (Forseti hringir.) þar á meðal þingmenn Samfylkingarinnar sem mér finnst tala tungum tveim í sal Alþingis (Forseti hringir.) og úti í kjördæminu, að vinna nú af heilindum að þessu máli og sýna sanngirni (Forseti hringir.) í umræðunni gagnvart íbúum í Þingeyjarsýslum.