140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[15:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur er ég sammála hv. síðasta ræðumanni. Það á að breyta stjórnarskránni sjaldan og breytingarnar eiga að vera seigfljótandi, held ég hann hafi sagt, ég er hjartanlega sammála því. Við erum hins vegar ekki sammála um þessa þröskulda. Það er ekki út af ótta mínum við áhugaleysi fólks, heldur einfaldlega að í kosningafræðum eða þeim litteratúr sem ég hef lesið um þetta efni, eru tvær skoðanir á því hvort það eigi að vera þröskuldar eða ekki. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég tel réttara að hafa ekki þröskulda vegna þess að annars geta menn beitt atkvæði sínu án þess að nota það. Þetta verður auðvitað rætt og kannski læt ég bara í minni pokann og skipti um skoðun, ég skal ekki um það segja. En í dag er þetta einörð skoðun mín.