140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við byggjum á mjög skýrri stefnu. Sú stefna styðst við viðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ég vísaði til hennar í framsöguræðu minni áðan. Sú stefna er mjög skýr. Stefna íslenskra stjórnvalda hefur verið mjög skýr. Vandinn hefur verið sá að lögin hafa verið brotin, farið hefur verið á bak við þau og lögin hafa auk þess verið brotin án þess að menn hafi fengið rönd við reist. Það er það sem verið er að laga.

Hv. þingmaður talar eins og þetta sé einhver nýlunda, það megi ekki hrapa að breytingum. Veruleikinn er reyndar sá að í þessum sal núna eru staddir þrír þingmenn, hv. þm. Þuríður Backman, hv. þm. Mörður Árnason sem ár eftir ár hafa tekið þessa umræðu hér. Við höfum öll verið með mjög skýra afstöðu í þessum málum og ég hygg líka — alla vega man ég eftir að heyra hv. þm. Mörð Árnason orða þá hugsun, sem ég er mjög hlynntur, að lög eiga að vera skýr og það á að fara eftir þeim. Ef við ætlum að breyta lögunum eða breyta stefnu okkar þá gerum við það. Ef við ætlum að leyfa áfengisauglýsingar tökum við þá umræðu og meiri hlutinn ræður. Svo einfalt er það. Við búum hins vegar við lagaumgjörð sem er ekki hlýtt. Farið er á bak við lögin og það er það sem þetta frumvarp gengur út á fyrst og fremst. Í þessu eru ekki fólgnar neinar grundvallarbreytingar heldur er verið að sjá til þess að lögum í landinu sé framfylgt.