140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Núverandi ástand virkar ekki. Ég segi: Mér er til efs að þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir muni virka. Eða hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? Ætlar hann að koma upp netlöggu? Það er reyndar hugmynd frá Vinstri grænum. Á að koma upp netlöggu sem skannar þá alltaf allt netið og passar upp á að áfengisauglýsingar flæði ekki hingað inn? Er það ein hugmyndin? Hvernig ætlar hann að láta þetta virka í framkvæmd? Ætlar hann að vera með fólk úti í Eymundsson sem rífur áfengisauglýsingarnar út úr öllum erlendu blöðunum? Við búum í alþjóðlegu umhverfi. Við erum ekki einangruð. Þótt margir vilji einangra okkur alveg frá umheiminum búum við sem betur fer ekki þannig. Ég kom strax fram með spurningar, sem mér var ekki svarað á sínum tíma, um hvernig þetta eigi að virka í reynd. Við getum öll talað hér fjálglega um það að við ætlum að berjast gegn áfengisbölinu.

Ég held að þær tillögur sem hér liggja fyrir muni ekki virka af því að við lítum ekki til umhverfisins eins og það er í raun og sann. Alþjóðlegir fjölmiðlar hafa aðgang að okkur Íslendingum, sem betur fer, en við ætlum bara að banna þetta í íslenskum fjölmiðlum. Við ætlum að leyfa erlendum auglýsendum og framleiðendum að auglýsa. Ekki þeim íslensku. Haldið þið að engar erlendar auglýsingar komi hingað inn? Hvers konar vitleysa er þetta? (Gripið fram í.)

Það er ekki (Gripið fram í.) raunveruleikinn sem við búum við sem ætlunin er að endurspegla í þessu frumvarpi. Þess vegna segi ég að ég mun leggja mig fram við meðferð málsins í nefndinni við að ná samhljómi í þessu máli. Ég held að það sé stutt á milli manna ef menn vilja, ef menn fara ekki strax ofan í skotgrafirnar, sem mér finnst því miður sumir allt of mikið fastir í. Ég held að við verðum að reyna að vinna að þessu máli því að miklu fleira sameinar okkur 63 hér á þingi en sundrar.