140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að vita að hæstv. ráðherra er ekki búinn að slá þá hugmynd út af borðinu og ég hvet hann til að setja í gang þá vinnu sem ég óskaði eftir áðan að færi fram. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í samanburðinn við þá ríkisstofnun sem stendur til að flytja frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, þ.e. Sogn. Þar á að bjóða starfsfólkinu starf, það er ekki endilega talað um sambærilegt starf en sagt er að starfsfólki verði boðið starf. En á þeim starfsmannafundi sem boðað var til var fólki, starfsfólki sem á heima á Árborgarsvæðinu, tilkynnt, og við getum svo tekið umræðu um það annars staðar um hvernig það bar allt saman að, að ekki yrði greitt fyrir akstur til Reykjavíkur og að starfsmenn fengju ekki laun á aksturstímanum. Þessir 30 einstaklingar standa því frammi fyrir því að störf þeirra verða flutt til Reykjavíkur. Þeir þurfa annaðhvort að sækja vinnu þangað án allra kjarabóta eða leita sér að annarri vinnu.

Í hagkvæmniathuguninni sem gerð var er gert ráð fyrir 185,7 millj. kr. vegna ferða starfsmanna Gæslunnar til Keflavíkurflugvallar. Það er vegna þess að það á að keyra starfsmenn, þeir eru á launum á meðan og það kostar rútur og allt það. Af hverju er það tekið inn í dæmið þarna en ekki þegar verið er að færa aðra stofnun? Ég hlýt að spyrja, vegna þess að það er þessi ríkisstjórn sem leggur niður starfsemina á Sogni: Getum við þá ekki strax tekið 185,7 millj. kr. út úr þessu dæmi og sagt: Verði starfsemin flutt hefur það í för með sér kostnað fyrir starfsfólkið X að koma sér á milli staða?