140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

höfuðborg Íslands.

29. mál
[17:24]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason talar tveimur tungum, ber kápuna á báðum öxlum. Það rekst nefnilega á þegar hv. þingmaður boðar það að Reykjavíkurflugvelli verði lokað 2016 því að honum yrði nánast lokað ef aðeins væri ein flugbraut. Til að mynda hafa öll flugfélög á Íslandi lýst því yfir að það gengi aldrei í þeim rekstri og þeim er treystandi til að meta það.

Á sama tíma á að styrkja stofnanir þjóðfélagsins á höfuðborgarsvæðinu. Það á að styrkja innviðina í Reykjavík en þrengja aðkomuna að Reykjavík og þar er Reykjavíkurflugvöllur lykillinn að höfuðborginni. Það á reyndar við í báðar áttir en það vegur miklu þyngra gagnvart landsbyggðinni af því að landsbyggðin þarf að sækja til höfuðborgar sinnar og það eru skyldur höfuðborgarinnar að sinna því en ekki þrengja að því. Ætli það séu ekki svona 5.000–7.000 störf í höfuðborginni sem tengjast Reykjavíkurflugvelli, 600–800 á vellinum sjálfum og síðan öll störfin sem tengjast verslun, opinberum stofnunum, hótelum, leigubílar og annað. Þarna er drifkrafturinn í mikilli atvinnustarfsemi sem í rauninni er furðulegt að nokkrum sem er að hugsa um hagsmuni Reykjavíkur skuli detta í hug að bera fyrir borð.

Reykjavík er auðvitað stóri bróðirinn í landinu, í byggðum landsins, og það verður að ætlast til þess að hún kunni að vera stóri bróðir, (Forseti hringir.) kunni að sýna skilning og ræktarsemi.