140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

höfuðborg Íslands.

29. mál
[17:33]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir þessi tillaga til þingsályktunar um höfuðborg Íslands allrar athygli verð. Nú er það svo að ég er Reykvíkingur í húð og hár en um leið mikil byggðamanneskja í hjarta mínu. Ég vil sjá Ísland í blómlegri byggð um land allt.

Ég hjó sérstaklega eftir því sem hv. flutningsmaður tillögunnar, Mörður Árnason, sagði um sættir, að þetta væri viðleitni til að skýra hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar Íslands, sem höfuðborgar allra landsmanna, skýra réttindin og skyldurnar. Það tel ég mjög jákvætt, sérstaklega ef það er sett fram í anda sátta því að eins og við vitum og hefur sérstaklega komið fram í umræðum í dag hefur á margan hátt skort á slíkt.

Mig langaði til að spyrja hv. þm. Mörð Árnason, 1. flutningsmann, hvort hann þekki til einhverra fyrirmynda erlendis frá um svona samning eins og hér er talað um. Ég hjó einmitt eftir því líka að hér er talað um að eðlilegt sé að kanna stöðu höfuðborga í helstu grannlöndum í aðdraganda slíkra viðræðna. Ég hefði áhuga á að heyra hv. þingmann ræða þessa hluti aðeins frekar. Svo vil ég segja að það að Alþingi hafi meira samráð almennt við sveitarstjórnarstigið í landinu er jákvætt og það á við um Reykjavíkurborg sem og önnur sveitarfélög landsins.