140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá uppbyggilegu og jákvæðu umræðu sem farið hefur fram, ég held að hún sé okkur öllum til góðs. Ég þakka líka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ágætar fyrirspurnir.

Mér finnst alveg sjálfsagt að höldum áfram á sömu braut og fyrri nefnd, félags- og tryggingamálanefnd, sem vann mjög ötullega að lausnum fyrir skuldug heimili af mjög ákveðinni og jákvæðri lagasetningu þar um. Innan þeirrar nefndar ríkti gott samstarf, jákvæðni og bjartsýni og þannig á það að vera.

Hvað varðar eftirlitsnefndina tel ég nauðsynlegt að eftirlitsnefnd starfi áfram því að enn þá eru óunnin verkefni. Það þarf að vinna áfram að lausnum varðandi bændur, það þarf að vinna að lausnum varðandi lítil fyrirtæki og síðan þeirra stærstu. Ég tel því nauðsynlegt að nefndin vinni áfram.

Sömuleiðis tel ég að við þurfum í nefndinni að halda mjög ákveðið utan um þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni. Mér finnst eðlilegt að við höldum áfram að kalla til dæmis fjármálafyrirtækin á okkar fund og eins lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð til að fara yfir þær ábendingar sem fram koma í skýrslunni. Þær eru mjög skýrar og afmarkaðar og við eigum að taka tillit til þeirra í vinnu okkar. Ég vona að fleiri vinni með okkur að því.

Varðandi lánsveðin er það alveg sérstakur kafli og kemur mjög ákveðið fram í skýrslunni að þar er víða pottur brotinn. Þar sitja ákveðnir einstaklingar alls ekki við sama borð og aðrir hvað varðar 110%-leiðina. Lífeyrissjóðirnir eiga að leika þar stórt hlutverk og við verðum að sjálfsögðu að finna lausn á því máli. Það gengur ekki að ákveðnir aðilar séu, eins og nefndin orðaði það svo ágætlega, laumufarþegar. Við þurfum að fá alla að borðinu, (Forseti hringir.) allir verða að sitja við sama borð opinberlega.