140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

Skipasafn Íslands í Reykjanesbæ.

77. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um Skipasafn Íslands í Reykjanesbæ, þ.e. að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að ganga til samninga við Reykjanesbæ um Skipasafn Íslands þar sem grunnur safnsins yrði skipalíkön Gríms Karlssonar skipstjóra og módelsmiðs í Duus-húsum.

Við Íslendingar státum okkur af Snorra Sturlusyni og þætti hans í íslenskum fornbókmenntum og vekjum gjarnan athygli á því að hann hafi verið sagnamaður á heimsmælikvarða. Í sögu fiskiskipa Íslendinga, smíði á skipalíkönum af fleiri hundruð íslenskum fiskiskipum, eigum við okkar „Snorra Sturluson“ sem er Grímur Karlsson, skipstjóri og módelsmiður í Njarðvík í Reykjanesbæ.

Fiskiskip eru stundum talin hafa karma, sál, talin háð örlögum og tilfinningu um sjómenn bátsins og aðra sem koma við sögu, leysa úr læðingi aflið sem býr í því umhverfi sem báturinn hýsir, leggja bátunum lið með því að gefa sig þeim og vera hluti af þeim. Skipalíkön Gríms bera í sér persónugervingu reynslunnar og söguna um hvernig Íslendingar komust til vits og ára, frá fátækt til velferðar, frá moldarkofum til best byggðu íbúðarhúsa jarðarinnar, vegna sjósóknar við Ísland. Öll uppbygging Íslands á 20. öldinni er meira og minna í skjóli sjávarútvegsins sem gefur okkur 60% af þjóðartekjunum og hefur haldið vel verndarhendi yfir íslenskri þjóð á undanförnum árum þegar illa hefur árað, en þá bregst ekki sjávarútvegurinn.

Það er mikilvægt að feta leiðina fram á við í slíkri uppbyggingu skipasafns, koma því myndarlega fyrir. Víða er húsnæði sem hentar undir slíkt, notað húsnæði sem nánast ekki neitt er gert í í dag, gamalt húsnæði sem er fýsilegt að setja slíkt í vegna þess að það kostar lítið. Þar væri hægt að safna saman ýmsum hvunndagshlutum úr sjómennskunni, úr útgerðinni, vélarhlutum, tækjum og tólum, ljósmyndum og sögulegum þáttum sem fylgja hverjum einasta bát við Íslandsströnd. Hugmyndin er að koma þessu fram. Bátasafn Gríms Karlssonar í Duus-húsum hýsir um hundrað skipalíkön. Sjálfur hefur Grímur smíðað hátt á þriðja hundrað skipalíkön og það er einsdæmi í heiminum. Þótt þau væru ekki nema hundrað er það líka einsdæmi í heiminum. Þessa snilld eigum við að sýna almenningi, hafa burð í Skipasafni Íslands og þá værum við að gera myndarlega hluti, spennandi hluti, sýna höfuðatvinnuvegi Íslendinga ræktarsemi, höfuðatvinnuveginum sem veldur því að við búum við öflugt skólakerfi, öflugt heilbrigðiskerfi o.s.frv.

Þetta er sagan, þetta er handverkið, þetta er verkvitið og reynslan. Það er það sem hefur dugað okkur Íslendingum best. Þess vegna er sett fram þessi tillaga um Skipasafn Íslands í Reykjanesbæ.