140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða.

92. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga miðar að því að byggðasöfnum og öðrum söfnum landsins verði sýnd sú virðing að treysta starf þeirra, væntingar og drauma með starfi sérstaks prófessors við Háskóla Íslands, sem verði tengdur byggðasöfnum landsins og sérstaklega Byggðasafninu í Skógum undir Eyjafjöllum og þá um leið Þórði Tómassyni, safnverði, sem er líklega annar mesti safnamaður Íslandssögunnar á eftir Árna Magnússyni. Þessar tvær kempur skiluðu miklu verki og Þórður er enn að.

Mikilvægi byggðasafna á Íslandi, það er mikilvægið sem gildir, er óumdeilt. Þau eru allt í senn, menningarsöfn, sögusöfn og verkfærasöfn. Þau eru spegilmynd lífsins í landinu. Það segir í gömlu máltæki að því sem þú segir mér gleymi ég en það sem þú sýnir mér muni ég. Þetta er það sem reynslan hefur sýnt í stærstum dráttum. Byggðasafnið tryggir skilvirkni hvors tveggja.

Byggðasöfn eru mikilvæg fyrir þekkingu landsmanna á lífinu í landinu, þróun búsetu, lífsháttum og öllu sem lýtur að mannlegu samfélagi Íslendinga. Það skiptir miklu máli að þau séu sett upp af alúð og tillitssemi og af mikilli vandvirkni.

Byggðasafnið í Skógum er eitt öflugasta byggðasafn landsins. Það nýtur þess að hafa byggst upp undir forustu Þórðar Tómassonar, einhvers mesta safnamanns Íslandssögunnar eins og ég gat um áðan, sem hefur sinnt því af fádæma ósérhlífni og krafti, og þess að hafa byggst upp í nánum tengslum við grasrótina í landinu, fólkið sjálft í starfi og leik.