140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

veiðigjald á makríl og síld.

[10:58]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vísar í að veiðigjöld af þessu tagi þurfi að leggja á með lögum. Það er hárrétt, en ég vil spyrja um framtíðina og hvort ekki sé morgunljóst að við verðum að fara þá leið að tryggja almennt sanngjarnt afgjald af öllum verðmætum nytjastofnum í hafinu og reyndar einnig á öðrum þeim sameignum þjóðarinnar sem lúta að orku og öðrum þeim auðlindum sem þjóðin á sameiginlega til að tryggja að þjóðin fái eðlilegan og sanngjarnan hlut af afrakstri af nýtingu þessara auðlinda.

Spurning mín er þessi: Er ráðherrann tilbúinn að beita sér fyrir lagabreytingu á þessum vetri sem tryggi samræmt veiðigjald í þá veru sem ég hef rakið á nytjastofnum, hvort sem þeir heita makríll, síld, loðna eða þorskur?