140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

svört atvinnustarfsemi.

[11:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Vandamálið er að sjálfsögðu nákvæmlega jafngrafalvarlegt þó að við höfum upplýsingar í höndum sem gefa sterkar vísbendingar um að það hafi verið til staðar og af svipaðri stærðargráðu á árum áður. En þar með er hrunin röksemdin fyrir því að þessar vísbendingar séu til marks um stóraukna veltu í svörtu hagkerfi og bein afleiðing af skattbreytingunum undanfarin missiri. Þannig er það ekki. (Gripið fram í.)

Það er annað sem er ákaflega alvarlegt í þessu, menn skulu varast að tala um þessa hluti þannig að það virki sem hálfgildings réttlæting á því að svikið sé undan skatti. (Gripið fram í.) Það er aldrei verjandi, það er aldrei réttlætanlegt og það er tilræði við velferðarkerfið og við eigum að sameinast um að fordæma það vegna þess að það er ósanngjarnt í garð þeirra sem skilvíslega standa skil á sínu. (Gripið fram í.) Það á ekki að líðast og það er engin afsökun fyrir því. Skatthlutföll eru engin afsökun fyrir því að fara ekki að lögum. Menn eiga að virða (Forseti hringir.) reglur um hámarkshraða sem er lögbundinn hvort sem hann er 80, 90 eða 100 km/klst. Svo einfalt er það og nákvæmlega eins er með skattana.

Ég fagna auðvitað allri umræðu um þetta og öllu liðsinni sem ég fæ í því að taka á þessum málum. Það er verið að gera það núna með margvíslegum lagabreytingum og með því að við erum búin að efla (Forseti hringir.) skattstjóra-, ríkisskattstjóra- og skattrannsóknarstjóraembættin og með fjölmörgum fleiri ráðstöfunum.