140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kaupi nú ekki alveg þá útreikninga og vil fara betur yfir það, sérstaklega varðandi það að uppistöðufjármögnunaraðili ríkissjóðs eru lífeyrissjóðirnir (Gripið fram í.) og þessi breyting hefur óveruleg áhrif á þá. Ég held að grunnvaxtaákvarðanir Seðlabankans hafi kannski beinni og milliliðalausari áhrif á þetta en nákvæmlega hvaða vaxtamun þarf til að skapa eðlilega afkomu í bankakerfinu.

Ég bendi engu að síður á að þessi skattur hefur náttúrlega það eðli að hann hvetur til hagræðingar. Hann gerir það dýrt fyrir bankana að borga mjög há laun (Gripið fram í.) þannig að bankarnir munu þurfa að huga að því — og þurfa þess hvort sem er — hvernig þeir geta endurskipulagt og hagrætt í rekstri sínum á komandi árum. Það er rétt og skylt að fara yfir skattlagningarumhverfið hjá þeim í heild og ég viðurkenni alveg að þær greiðslur eru nokkuð þungar núna, sérstaklega á meðan sérstaka vaxtaniðurgreiðslan er inni og meðan rekstrarkostnaður (Forseti hringir.) Fjármálaeftirlits og umboðsmanns skuldara er jafnmikill og raun ber vitni. En það teiknar til þess að sá kostnaður fari síðan hratt lækkandi strax frá og með næsta ári. (Forseti hringir.) Við erum því að leggja tímabundið dálítið mikið á kerfið, enda er verið að gera það (Forseti hringir.) út um allan heim því að mönnum finnst nú að þessir menn megi borga.