140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að lækkun tryggingagjalds kemur bæði fyrirtækjum og heimilum til góða. Reyndar lét hæstv. ráðherra þess ógetið að tryggingagjaldið er ekki lækkað í samræmi við spár um minnkað atvinnuleysi. En hvað um það.

Það er líka rétt að það kemur heimilunum til góða að persónufrádrátturinn hækki en einnig er ljóst að sú aukna skattbyrði sem felst í frumvarpinu, þ.e. þegar tekið er tillit til kostanna, eða þess sem kemur jákvætt fram og þess sem kemur neikvætt fram, þá munu neikvæðu hlutirnir yfirgnæfa hina jákvæðu sem nemur um það bil 18 millj. kr. Það er því ekki rétt túlkun að heildaráhrifin af þessu séu jákvæð.

Vegna athugasemdar hæstv. ráðherra um að það sé sjálfsagt að taka tillit til málefnalegra ástæðna þegar um breytingar á skattkerfinu er að ræða þá er ég algerlega sammála því. En það sem ég sagði í ræðu minni var að ekki voru notaðar málefnalegar ástæður til að setja afdráttarskattinn á vegna þess að búið var að vara við þeim hlutum. Það var gert skriflega í greinargerð, þegar þetta var lagt á, af 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar. Þar var varað við að fara þessa leið og bent á: Farið þið frekar dönsku leiðina ef þið ætlið að gera þetta.

Það er því ekki rétt að tekið hafi verið tillit til málefnalegra ástæðna að þessu leyti.