140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara þessu í stuttu máli sagði ég í ræðu minni áðan að ef menn í þessum sal eða fjármálaráðuneytinu eða annars staðar hafa sérstakar áhyggjur af hagnaði bankanna er eðlilegra að skattleggja hagnaðinn meira en gert er frekar en að fara í launaskatt. Launaskattur af þessu tagi slær mig mjög illa. Það að nota launin sem viðmiðun í þessu tilviki finnst mér mjög einkennileg aðferð til að nálgast þau markmið sem frumvarpinu virðist ætlað að ná. Auðvitað getum við velt fyrir okkur hvað valdi því að bankarnir sýna þær hagnaðartölur sem hv. þingmaður nefnir. Það að bankar skili hagnaði gerir það að verkum að skatttekjur skila sér í ríkissjóð því að bankar borga væntanlega tekjuskatt af hagnaði sínum eins og önnur fyrirtæki. Hin almenna viðmiðun tekjuskatts lögaðila er hagnaður, það er í grófum dráttum þannig.

Hins vegar velti ég fyrir mér, eins og hv. þingmaður, hvort aðgerðir eins og þessi skattlagning þurfi ekki einmitt að skoðast í einhverju víðara samhengi þegar við veltum fyrir okkur hvernig regluverkið um fjármálastarfsemina eigi að vera. Sé ætlunin að sporna við ofþenslu og launahækkunum innan bankakerfisins með því að leggja á svona skatt finnst mér menn fara skringilega leið. Ég treysti því hins vegar að þetta verði vandlega (Forseti hringir.) skoðað í nefndinni.