140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

virðisaukaskattur.

32. mál
[15:38]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt þar sem lagt er til að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælum og tengdum búnaði til húshitunar.

Lækkun á húshitunarkostnaði fyrir þau heimili sem ekki njóta þess að hafa heitt vatn eða jarðvarma til að kynda hús sín hlýtur að vera forgangsmál hjá öllum þeim sem láta sig varða jöfnun lífsgæða og búsetuskilyrða um allt land. Eins og 1. flutningsmaður frumvarpsins, Einar Kristinn Guðfinnsson, fór yfir er gríðarlegur mismunur á kyndikostnaði heimila eftir því hvort þau njóta jarðvarma eða eru kynnt með rafmagni. Munurinn er allt upp undir tvöfaldur ef við skoðum hæstu gjaldskrár hitaveitna og miða ég þá við Orkubú Vestfjarða í þéttbýli en það er hærra í dreifbýlinu.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum er nátengt tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson hefur lagt fram og var dreift í fyrradag. Ég ætla því aðeins að ræða þetta á þeim nótum og vil hrósa hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni og meðflutningsmönnum hans að þessari tillögu fyrir að koma fram með hana því að þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir 10% heimila í landinu. Það var rétt sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson talaði um áðan að það eru bara um 10% heimila með rafmagnskyndingu. Niðurgreiðslurnar nema rúmum 1 milljarði kr. þannig að það hlýtur að vera eftir einhverju að slægjast fyrir ríkið að fara í aðgerðir til að ná lægri kyndikostnaði fyrir þessi heimili. Við þurfum að finna leiðir til að lækka húshitunarkostnað og þetta frumvarp er ein leið sem ég lít svo á að sé í rétta átt.

Virðulegi forseti. Í skýrslu sem var birt í dag á vef iðnaðarráðuneytisins, Orkustefna fyrir Ísland, kemur fram eins og ég kom aðeins inn á í máli mínu hér á undan að 90% heimila njóta hitaveitna en 10% heimila njóta rafmagnskyndingar. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon fór að tala um hátt raforkuverð og sérstaklega þá í dreifbýli og það er alveg rétt. Sú sem hér stendur er nokkuð stolt af því að vera stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða, skipuð af hæstv. fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Við erum mjög ánægð með að vera með lægsta auglýsta raforkuverð á landinu. Samt sem áður finna íbúar Vestfjarða ekki fyrir því og kvarta eðlilega undan síhækkandi reikningum sem er fyrst og síðast út af hluta húshitunarinnar og því að niðurgreiðslur hafa staðið í stað um langt árabil. Fastri krónutölu hefur verið varið til niðurgreiðslna en með hækkun raforkuverðs miðað við verðlagsbreytingar og annað hefur heildarreikningurinn hækkað.

Í sömu skýrslu og ég nefndi áðan, Orkustefna fyrir Ísland, sem ég las á vef iðnaðarráðuneytisins kemur fram að jarðhitaleit hafi náð hagkvæmni. Þessu er ég ekki alveg sammála komandi úr sveitarfélagi vestur á fjörðum sem er eitt mest rannsakaðasta svæði varðandi hitaveituna sem við njótum og þess vegna er ég fullmeðvituð um hvílík lífsgæði það eru og hve mikið það bætir búsetuskilyrðin fyrir íbúa þar að stórar rekstrarfrekar einingar eins og sundlaugar, íþróttahús og skólar íþyngi ekki rekstri sveitarfélagsins. Nú leitum við leiða til að bora eftir heitu vatni og erum að bíða eftir fulltingi Orkusjóðs og því treysti ég að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sjái sér fært að bæta í og styrkja rekstur Orkusjóðs til þess einmitt að ná því markmiði að lækka húshitunarkostnað á landinu á þessum köldu svæðum.

Virðulegi forseti. Það var ætlun stjórnvalda og hefur alltaf verið vilji stjórnvalda að greiða niður raforkudreifingu í dreifbýli að því marki að hún verði jafndýr og raforkudreifing í dreifbýli. Þessu markmiði hefur aldrei verið náð. Ég lít svo á að þetta frumvarp sé ein leiðin til að ná því markmiði þó að betur megi ef duga skal. Eins og ég sagði í upphafi trúi ég ekki öðru — og það sýnir sig á því hverjir eru meðflutningsmenn á þessu frumvarpi, það er fólk úr öllum flokkum — en þessu frumvarpi verði veitt gott brautargengi í nefndinni og nái fram að ganga. Ég lýsi hér með yfir fullum stuðningi við frumvarpið og endurtek að ég treysti því, ekki síst í ljósi orða hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, að það nái fram að ganga.