140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

úttekt á álitsgerðum matsfyrirtækja um lánshæfi íslenskra aðila.

35. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um úttekt á álitsgerðum matsfyrirtækja um lánshæfi íslenskra aðila. Auk mín eru flutningsmenn þessarar tillögu hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir, Davíð Stefánsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús Orri Schram og Ólína Þorvarðardóttir.

Tillaga okkar er sú að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að ráða hæfan og óháðan erlendan sérfræðing til að gera úttekt á álitsgerðum matsfyrirtækjanna Moody's, Fitch Ratings og Standard & Poor's um lánshæfi íslenskra fyrirtækja og stofnana fyrir og eftir hrun íslenska fjármálakerfisins í október 2008. Í úttektinni felist hlutlægt mat á gæðum álitsgerða matsfyrirtækjanna og áhrifum þeirra á ákvarðanatöku opinberra aðila og einkaaðila. Úttektin og niðurstöður hennar verði kynntar á innlendum og erlendum vettvangi og nýtt til stefnumótunar stjórnvalda um kröfur um hlutlægni álitsgerða um fjárhagsstöðu opinberra fyrirtækja og einkafyrirtækja sem og stofnana.

Allir þekkja þá sögu að matsfyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki á fjármálamörkuðum. Í kjölfar fjármálakreppunnar 2007–2008 hefur gagnrýni á þessi þrjú stærstu fyrirtæki, Moody's, Fitch Ratings og Standard & Poor's, verið mikil og mikil umræða um hvort mat þessara fyrirtækja hafi jafnvel ýtt undir áhættusækni á mörkuðum. Bæði var að þau vanmátu þá áhættu sem fólst í starfsemi fjármálafyrirtækja og þeirra gjörninga sem þau sköpuðu og síðan hafa viðbrögð þessara matsfyrirtækja við skuldavanda ríkja líka verið mjög athyglisverð og mjög umdeilanleg. Bent hefur verið á að þau kunni að vera fjármögnuð og starfi með óeðlilegum hætti, auk þess sem þau beri litla ábyrgð á störfum sínum. Fyrirtækin meta aðila og lánshæfi þeirra en þiggja jafnframt verklaun frá þeim fyrirtækjum sem þau meta og því telja margir að hagsmunaárekstrar séu innbyggðir í starfsemi þeirra út af fjármögnuninni.

Síðan er til að taka, sem við stjórnmálamenn ættum heldur betur að hafa alvarlegar áhyggjur af, að ákvarðanir matsfyrirtækjanna um lánshæfismat hafa ekki aðeins áhrif á fjármálamörkuðum, heldur hafa þau einnig pólitísk áhrif á stefnumörkun stjórnvalda. Þetta sést glöggt í afskiptum þessara fyrirtækja af skuldamálum evruríkjanna, t.d. varðandi mögulegar afskriftir banka af lánum til Grikklands. Þessi þingsályktunartillaga er skrifuð fyrir nokkrum vikum þegar ekki lá fyrir að fara ætti í afskriftir banka af lánum til Grikklands. Núna hefur enn orðið vending í þeirri sögu og við vitum ekki hvernig hún endar en það er annað mál og fyrir utan verksvið þessarar tillögu. Síðan hafa fyrrnefnd matsfyrirtæki lækkað með umdeilanlegum hætti lánshæfismat á bandaríska ríkið og það ítalska. Þarna eru því undir almannahagsmunir, hagsmunir þeirra borgara sem búa í ríkjum þar sem lánshæfismat er lækkað, oft á hæpnum og umdeilanlegum forsendum.

Við á Íslandi vitum alveg hvernig þessi saga var, að lánshæfismat þessara fyrirtækja á íslenskum bönkum, sem fengu erlent fé lánað á mörkuðum þótt lítil innstæða hafi reynst fyrir þegar á reyndi, var um margt óraunhæft. Síðan höfum við fundið hvernig fyrirtækin hafa lækkað harkalega lánshæfismatið eftir hrun og einnig með hvaða hætti þau blönduðu sér í Icesave-deiluna.

Ísland er eins og önnur ríki að mörgu leyti í erfiðri stöðu gagnvart þessum matsfyrirtækjum, enda ráðast kjör og framboð á erlendu fjármagni að miklu leyti af áliti þeirra. Það er því mikilvægt að gera vandaða úttekt á starfi matsfyrirtækjanna hér á landi, enda þurfa þau gagnrýnið aðhald eins og aðrir.

Það gætir mikillar gremju í garð þessara fyrirtækja vegna framgöngu þeirra fyrir og eftir hrun. Ég tel að slík gremja sé mjög eðlileg, en til þess að mark sé takandi á gagnrýni þarf hún að vera byggð á vandaðri og málefnalegri umfjöllun um þessi fyrirtæki. Til að tryggja að svo geti orðið er hér lagt til að úttektin verði gerð af óháðum og viðurkenndum erlendum aðila sem getur eftir atvikum nýtt sér innlenda kunnáttu og reynslu.

Innan einstakra ríkja og á alþjóðavettvangi er nú rætt um hvernig bæta megi starfsemi matsfyrirtækjanna og hugsanlega koma á fót nýrri alþjóðlegri stofnun sem starfi með opnum og lýðræðislega ábyrgum hætti. Ég tel mjög áríðandi að íslensk stjórnvöld taki þátt í umræðum af þessu tagi og móti sér stefnu. Mikilvægur liður í slíkri stefnumótun er vönduð úttekt á hvernig matsfyrirtækin mátu íslensk fjármálafyrirtæki og opinbera aðila.

Ég vil bara árétta það, frú forseti, í ljósi þeirra hremminga sem Ísland lenti í þrátt fyrir ákaflega jákvætt lánshæfismat þessara þriggja matsfyrirtækja í aðdraganda hrunsins, sem er mjög umhugsunarvert, að það sé beinlínis skylda stjórnvalda að gera slíka úttekt svo hægt sé að tryggja að þeir sem fjármagna starfsemi sína með lánsfé fái eðlilegt mat og ekki sé verið að setja almenning ríkja í þá stöðu að þurfa að standa undir óraunhæfri lántöku sem í raun hefur verið stimpluð af stórum alþjóðlegum matsfyrirtækjum.

Ég legg til að þingsályktunartillögunni verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og fái þar vandaða meðferð, og að vonandi næst að samþykkja ályktunina á Alþingi fyrir jól.