140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[15:00]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hv. þm. Róbert Marshall hitti kannski einmitt naglann á höfuðið að það þarf að ræða þessi mál, fjárhagsmál sveitarfélaganna, í stærra samhengi. Það þarf að tryggja þeim tekjur til frambúðar. Það má ekki vera fast í hendi ár eftir ár að þau séu háð einhverjum ölmusuframlögum frá ríkinu sem menn svo hér á þingi takast á um í einhverri hrepparígspólitískri umræðu. Það er ekki boðlegt fyrir sveitarfélögin úti á landi að þurfa að sitja undir slíku fyrirkomulagi.

Sum sveitarfélög hafa orðið fyrir gífurlegri blóðtöku vegna fólksfækkunar, önnur félög standa mjög illa þó að þau séu mjög fjölmenn. Hafnarfjörður og Reykjanesbær eru á hausnum, Álftanes er á hausnum þó að það sé kannski ekki mjög fjölmennt sveitarfélag, þar eru á þriðja þúsund íbúa. Önnur með færri íbúa standa enn verr og eru algjörlega upp á þetta framlag ríkisins komin.

Ég leyfi mér að velta þeirri hugmynd upp, frú forseti, hvort ekki sé kominn tími til að þau sveitarfélög og þá ekki síst þær sjávarbyggðir sem eru í kringum landið fái aftur þær auðlindir til afnota sem grundvölluðu tilvist þeirra í upphafi, þannig að sveitarfélögin hafi þær tekjur sem þær þurfa af náttúruauðlindunum sem þær búa að. Verið er að reyna að feta sig áfram inn á þá leið með því að leggja til að nýting raforku og jarðvarma verði nýtt heima í héraði í þeim málum. Hvers vegna er ekki farin sú leið að sá fiskur sem er í sjónum fyrir utan sjávarbyggðirnar verði einfaldlega þeim til ráðstöfunar eins og var þegar kvótakerfinu var breytt og þegar kvóti til byggðanna byggðist á veiðireynslu þeirra en ekki einhverjum dollaramerkjum og braskhugmyndum manna í Reykjavík.

Frumvarp Hreyfingarinnar um breytingu á kvótakerfinu er mjög stórt skref í þá átt og tryggir öllum sjávarbyggðum hringinn í kringum landið góðar tekjur til framtíðar af þeirri auðlind sem grundvallaði tilvist þeirra í upphafi frá örófi alda.