140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[15:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að hefja máls á því mikilvæga máli sem við ræðum, sem er aukaframlagið og sú stórfellda skerðing sem blasir við sveitarfélögunum á því. Auðvitað er það þannig að skera þarf niður hjá ríkinu. Það tekur í og það tekur á á mjög mörgum sviðum, það munu allir finna fyrir þeim niðurskurði. Hins vegar þarf að vera skýr forgangsröðun um hvað verið er að gera og ljóst hverjar leikreglurnar eru svo að allir sitji við sama borð.

Ekki er síður mikilvægt að þær aðgerðir sem gripið er til komi ekki til með að auka á vandann. Ég tel að verði þessi útfærsla að veruleika séum við einfaldlega, eins og maðurinn sagði „að pissa í skóinn okkar“ þ.e. auka á vanda verst settu sveitarfélaganna á Íslandi. Þegar maður er að leysa vanda er það regla númer eitt sem maður á að horfa til.

Tökum dæmi um lítið sveitarfélag í Suðurkjördæmi sem heitir Skaftárhreppur. 5% af tekjum sveitarfélagsins koma úr sjóðnum. Þetta er lítið sveitarfélag sem stendur höllum fæti, bæði vegna mikillar fólksfækkunar og svo einfaldlega vegna landfræðilegrar legu þess. Þetta er gríðarlega landstórt sveitarfélag og erfitt að sjá með hvaða hætti það sveitarfélag á að koma til móts við slíkan niðurskurð. Hvernig á sveitarfélag sem þetta að auka tekjur sínar til að ná upp í þann halla sem óhjákvæmilega leiðir af þessari ráðstöfun?

Við getum auðvitað leyft okkur í ræðustól að tala um einhverja framtíðarmúsík, eins og hv. þm. Róbert Marshall segir, að það eigi bara að leysa vandann í grunninn með því að sameina sveitarfélög. Allt í lagi að gera það en það leysir ekki þann vanda sem við horfum á hér og þetta verkefni. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu eigum við að gera það líka en við verðum samt að leysa þetta verkefni. Hvernig á sveitarfélag, eins og t.d. Skaftárhreppur, (Forseti hringir.) að ganga í gegnum þetta og lifa það af? Ég held því miður, frú forseti, að lausnin á vanda sveitarfélaga sé ekki sú að endurvekja (Forseti hringir.) bæjarútgerðina eins og Hreyfingin vill meina.