140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

innleiðing á stefnu NATO.

[10:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Eins og ég skil spurningu hv. þingmanns ætlar hún að NATO hafi í reynd samþykkt það að netárás á eitt ríki falli undir 5. gr. sáttmálans og því jafngilda árás á öll þeirra. Ég held að það sé misskilningur. Sú stefna sem hér um ræðir, eftir því sem ég best veit, varðar ekki ytra öryggi ríkjanna heldur innra öryggi búnaðar NATO sjálfs. Hygg ég að segja megi að stefna sem varðar innra öryggi NATO hafi yfirleitt ekki verið lögð fyrir þingin eða viðkomandi ríkisstjórnir. Það eru tæknisérfræðingar sem um það fjalla. Um það skal ég þó reyna að ganga úr skugga frekar.

Að öðru leyti um það hvernig stefna NATO er innleidd þá höfum við dæmi um það þegar grunnstefna NATO, sem er sú eina umfangsmikla stefnubreyting sem hefur orðið í okkar tíð saman á þinginu, var innleidd. Hófst það með því að utanríkismálanefnd voru kynntar hugmyndir Íslands. Það var sett á laggir sérstök nefnd sérfræðinga sem fór á milli landanna og við fengum einmitt sérfræðing hingað sem síðar varð utanríkisráðherra Lettlands. Hann kynnti stöðu mála þá fyrir utanríkismálanefnd í þeim trúnaði sem þar ríkir. Anders Fogh Rasmussen kom sömuleiðis hingað til lands og ræddi þetta mál við utanríkismálanefnd. Ég held að ég hafi síðan upplýst utanríkismálanefnd tvisvar eða þremur sinnum um stöðu mála þannig að það er það samráð sem hefur verið haft við þingið. Þegar því lauk lá það alveg fyrir með hvaða hætti átti að samþykkja grunnstefnuna á sínum tíma, eins og var gert í Lissabon, þannig að þingið, fulltrúar allra flokka gátu fylgst mjög vel með því. Hún greinir líka frá því að í því ferli öllu breyttust áherslur meðal annars vegna þess að viðhorf komu fram úr hópi þingmanna.

En ég held sem sagt að hér sé um að ræða misskilning að því er varðar 5. gr. og skilgreiningu á netárás sem utanaðkomandi árás.