140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

uppbygging í orkufrekum iðnaði.

[11:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið á opnum fundi með iðnaðarráðherra í atvinnumálanefnd í morgun. Ítrekað hefur komið fram, bæði hjá Landsvirkjun og hæstv. ráðherra, að ekki sé unnið annars staðar að uppbyggingu í orkufrekum iðnaði en á norðaustursvæðinu vegna þess að ákvarðanir skortir um næstu skref á öðrum landsvæðum.

Í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar til ársins 2025 er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við virkjanir m.a. í neðri Þjórsá á næsta ári. Til að sú áætlun geti gengið eftir þurfa framkvæmdir að fara af stað á næsta ári og koma þannig af fullum þunga inn í efnahagsumhverfi þjóðarinnar á árinu 2013. Það er samdóma álit þeirra sem um erfiða stöðu okkar fjalla, að tækifærið til að vinna okkur sem best út úr erfiðum aðstæðum kreppunnar liggi í því að nýta orkuauðlindir landsins.

Í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar er gert ráð fyrir því að hefja virkjanir í neðri Þjórsá á næsta ári eins og ég segi. Til að svo megi verða þarf að taka ákvarðanir í vetur um næstu skref. Það eru í raun og veru engir aðrir virkjunarkostir sem hægt er að taka ákvörðun um en virkjanir í neðri Þjórsá. Engir aðrir virkjunarkostir eru komnir eins langt í undirbúningi þannig að ekki er raunhæft að taka ákvörðun um virkjanir á öðrum svæðum.

Nú hefur landsfundur Vinstri grænna og þingmenn þeirra lagt ríkisstjórnarsamstarfið að veði, þeir bjóða ekki upp á neinar málamiðlanir varðandi rammaáætlun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Sér hún það sem möguleika að ákvarðanir um næstu skref til heilla fyrir íslenska þjóð verði teknar í vetur eða sér hún fyrir sér að (Forseti hringir.) ályktanir einstakra þingmanna Vinstri grænna og landsfundar Vinstri grænna komi í veg fyrir að svo megi verða?