140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

beiðni um sérstaka umræðu um sparisjóði.

[11:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta eru fullkomlega ómaklegar ásakanir og dylgjur hjá formanni þingflokks Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Hann hefur engin efnisleg rök fyrir því að veitast að mér og tala um að ég sé að koma mér undan því að taka þessa umræðu. Ég rakti hvernig málið er. Má ekki segja hlutina eins og þeir eru? Nei, þá er strax byrjað að snúa út úr. Það er til lítils að eiga þá skoðanaskipti og upplýsa um hluti ef þeim er alltaf tekið með þeim hætti. Það er ákaflega framsóknarlegt, verð ég að segja.

Ég var í útlöndum á þriðjudaginn á Ecofin-fundi fjármálaráðherra Evrópuríkja og hafði enga hugmynd um að þetta hafi verið rætt á Alþingi enda var ég ekki viðstaddur. Það er eins satt og nokkuð getur verið satt að það var síðdegis í gær sem ég fékk um það skilaboð frá ritara mínum að óskað væri eftir því að taka þessa umræðu. Eftir að hafa athugað málið lauslega bað ég um að þeim skilaboðum yrði komið til baka að það mundi standa vel á að taka umræðuna í næstu viku og þá gæti hún orðið tímanleg og vel undirbúin. Óundirbúnar fyrirspurnir eru til að taka málið upp óundirbúið en utandagskrárumræður eru eðli málsins samkvæmt þannig að það er eðlilegt að báðir (Forseti hringir.) málsaðilar geti undirbúið sig undir umræðuna. (Forseti hringir.) Þess vegna eru þær skipulagðar og undirbúnar með ákveðnum fyrirvara. (Forseti hringir.) Ég kannast ekki við að ég hafi verið tregari öðrum mönnum til að taka þær og (Forseti hringir.) haldi einhver að ég sé hræddur við Framsóknarflokkinn þá er það arfagamall misskilningur. (Gripið fram í: Nú?)