140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að draga fjöður yfir neitt. Ég bendi bara á að ríkisstjórninni hefur tekist með eftirtektarverðum hætti að fylgja áætlun um hallalaus fjárlög. Við erum að sjálfsögðu ekki komin þangað enda gerðu áætlanir ekki ráð fyrir því. (KÞJ: Jú.) En það hefur haft ófyrirsjáanlegan kostnað í för með sér það loforð sem gefið var af þáverandi ríkisstjórn, og var síðar ítrekað, að full trygging væri á innstæðum í fjármálakerfinu til þess að koma í veg fyrir enn alvarlegra hrun en þó varð. Það er ómaklegt og beinlínis rangfærsla að mínu mati að dæma framgöngu þessarar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum út frá skuldbindingum sem falla á ríkið vegna þessarar yfirlýsingar.