140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð umræða og nauðsynlegt að fara vel í gegnum hana. Það er alltaf álitaefni hvort forsvaranlegt sé að taka upp gjaldtöku á leiðir. Við ræddum Hvalfjarðargöngin á sínum tíma, Vaðlaheiðargöngin núna. Það er annar valkostur.

Eins og hv. þingmaður nefndi áðan erum við ekki sérfræðingar í slíkri gjaldheimtu en til grundvallar liggur, ef greiða á einstakar framkvæmdir niður með notkun á þeim, eins og með Sundabraut, hugsanlega tvöföldun á Vesturlandsvegi og þar áfram eða Suðurlandsvegi, einhvers konar rafræn innheimta gjalda. Tollahlið koma aldrei til greina á svo fjölförnum leiðum. Það yrði einhvern veginn að koma því þannig fyrir að persónuverndarsjónarmiðum og öðru yrði fullkomlega mætt. Það er útfærsla sem við sjáum ekki enn í hendi okkar hvernig verður en er algjörlega nauðsynleg. Þegar útfærslan á því er í höfn, þegar við getum sem sagt útfært rafræna innheimtu notendagjalda, ætti hún að einhverju leyti að koma í staðinn fyrir eldsneytisgjöldin þannig að við borguðum beint fyrir notkunina. Þannig gætum við hleypt af stað stærri verkefnum sem annars yrði ekki af.

Umræðan um Vaðlaheiðargöng snýst ekki um að ef ekki verði farið í þau verði farið í eitthvað annað, þetta er fjármagn sem kæmi ekki inn í samgöngumannvirki nema af því að Vaðlaheiðargöng verða fjármögnuð þannig. Eins mætti segja með Sundabraut og hugsanlega Vesturlandsveg og Suðurlandsveg að tugmilljarðasamgönguframkvæmdir færu af stað ef við veldum þessar leiðir. Ég ítreka því við hv. þingmann að mikilvægt er að menn nái samstöðu þvert á flokka, sveitarfélög, ríki, borg og bæi um að skoða það vandlega að fara þessa leið, Vaðlaheiðarleið, með stórar framkvæmdir eins og Sundabraut áður en við sláum þær út af borðinu. Við gætum þannig komið gríðarlega mikilvægum framkvæmdum af stað sem ella færu ekki af stað (Forseti hringir.) fyrr en eftir mörg ár af því að fé skortir.