140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

ráðning forstjóra Bankasýslunnar.

[15:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það getur orðið handleggur ef það á að eltast við það að staðfesta eða bera til baka allar fréttir af þessu tagi sem birtast á vefmiðlum. Ég get bara svarað fyrir mig, eins og þegar hefur komið fram opinberlega, að ég fékk engar upplýsingar eða skilaboð um þessa fyrirhuguðu ráðningu fyrir fram, las um hana í blöðum eins og aðrir enda engin sérstök ástæða til annars þar sem stjórn Bankasýslunnar er algjörlega sjálfstæð í störfum sínum að þessu leyti. Lögin eru skýr hvað það varðar og þetta er á verksviði hennar.

Um það hvort einhver samskipti hafi átt sér stað milli einhverra embættismanna og stjórnarformanns Bankasýslunnar áður en þetta varð opinbert í fjölmiðlum er ég ekki til vitnis. Svo mikið er víst að ég fékk engar upplýsingar um þetta, engin skilaboð og vissi fyrst af málinu þegar það varð opinbert í fjölmiðlum.