140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

ríkisábyrgðir á bankainnstæðum.

[15:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Allt frá haustinu 2008 hefur verið unnið á grundvelli margendurtekinna yfirlýsinga stjórnvalda um að innstæður í bönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar í því fjármálaáfalli sem hér varð. Sú aðgerð var að sjálfsögðu stærst og mest þegar stóru bankarnir voru teknir niður og nýir stofnaðir til að taka við öllum viðskiptum þeirra og þar með talið innstæðum, ekki síst. Í öðrum tilvikum sem hliðstæð hafa verið síðan þegar Fjármálaeftirlitið hefur á grundvelli valdheimilda sinna gripið inn í rekstur stofnana hefur verið unnið með sama hætti. Meðferð mála varðandi Sparisjóð Keflavíkur er að þessu leyti algjörlega sambærileg og í fyrri tilvikum, innstæðum hefur verið komið í skjól, annaðhvort með sameiningu strax við aðra fjármálastofnun eða á grundvelli þess að stofnað hefur verið móttökufélag til að taka við innstæðunum.

Það er mikilvægt að hv. þingmaður átti sig á því að það er Fjármálaeftirlitið sem fer með hinar ríku valdheimildir og tekur allar stjórnvaldsákvarðanirnar sem máli skipta. Hlutverk fjármálaráðuneytisins hefur eingöngu verið það að vera tilbúið í þeim tilvikum sem slíkt varð niðurstaðan að undirbúa og hafa klárt móttökufélag til að taka við innstæðunum sem verið er að bjarga í aðgerðum af þessu tagi.

Í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur reynir því miður á það í fyrsta sinn að fjármálastofnun er svo illa farin að heildareignir hennar duga ekki fyrir innstæðum. Þá er alveg ljóst að enginn er til staðar nema ríkið í krafti þeirrar yfirlýsingar sem legið hefur fyrir og unnið er eftir til að taka á sig kostnað vegna þess mismunar. Vonandi verður þetta eina tilvikið sem slíkt á við. Ekki er enn sýnt hver kostnaðurinn nákvæmlega verður, líklegast að það fari í gerðardómsfarveg eins og samningarnir gera ráð fyrir ef ekki tekst samkomulag. Það þarf að vera hægt (Forseti hringir.) að fullnusta þetta og klára málið af hálfu ríkisins til þess meðal annars að innstæðurnar séu öruggar og varðar og þess vegna er þessarar heimildar óskað.