140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég óska eftir að eiga orðastað við hv. þm. Bjarna Benediktsson varðandi verðtryggingu, en verðtrygging neyslulána með því fyrirkomulagi sem þekkist hér á landi er nánast einsdæmi í heiminum. Í umræðu í síðustu viku um efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins talaði hv. þm. Bjarni Benediktsson um að verðtryggingin á Íslandi væri ekki vandamál heldur verðbólgan. Síðan þá hefur komið út könnun Hagsmunasamtaka heimilanna sem sýnir að 80% landsmanna eru hlynnt, mjög eða frekar hlynnt afnámi verðtryggingar en einungis 7,7% landsmanna eru andvíg eða frekar andvíg því að verðtryggingin verði afnumin.

Þegar kemur að kjósendum Sjálfstæðisflokksins í þessari könnun eru 79% kjósenda Sjálfstæðisflokksins frekar eða mjög hlynnt afnámi verðtryggingar en einungis 7% andsnúin slíku afnámi. Því langar mig að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga.

Í fyrsta lagi: Finnst honum rétt að taka tillit til þessara sjónarmiða þar sem það er einmitt vegna verðtryggingarinnar en ekki einhvers hugsanlegs aga einhvern tímann í ríkisfjármálum sem heimili landsins eru stórskuldug?

Í öðru lagi: Hagsmunasamtökin hafa nýlega óskað eftir afstöðu þingflokka til þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám verðtryggingar. Í könnuninni kemur fram að 51% landsmanna eru hlynnt slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Hver er afstaða hv. þm. Bjarna Benediktssonar til þessa máls?