140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Samkvæmt fréttum dagsins í dag hafa um 80 milljarðar af þeirri virðisaukningu sem hefur orðið í íslenska bankakerfinu frá því að þeir féllu runnið til kröfuhafanna og 30 milljarðar orðið eftir í íslensku bönkunum. Allt byggir þetta að öllum líkindum á þeim samningum sem gerðir voru um uppgjör milli nýju og gömlu bankanna en það er með miklum ólíkindum að þrátt fyrir kröfu okkar í Sjálfstæðisflokknum um að fá aðgang að þeim samningum, þeim upplýsingum sem allt þetta byggir á, verður ríkisstjórnin ekki við því.

Að öllum líkindum hefur meiri hluti krafna á bankana skipt um hendur frá því að þeir féllu þannig að þeir sem taka við þessum fjármunum, þessum 80 milljörðum sem eru að fara út úr íslenska bankakerfinu inn í þrotabúin, eru nýir aðilar, ekki þeir sem töpuðu á falli bankanna heldur þeir sem eru að stórgræða á því. Þeir eru ekki að græða lítið á því, þeir græða rosalega á því. Allt þetta grefur undan trausti á íslenska fjármálakerfinu, trausti almennings á því sem er að gerast hér í kjölfar hrunsins í þeim uppbyggingarfasa sem við erum í. Þetta grefur líka undan trausti atvinnulífsins í garð fjármálastofnananna og þess vegna er svo alvarlegt að ríkisstjórnin skuli gjörsamlega hafa brugðist í því að draga fram upplýsingar, tala um þessa hluti eins og þeir eru. Hún lætur það gerast að menn fái upplýsingar í smáskömmtum í fréttunum um jafnmikilvæga og -alvarlega atburði og hér eiga í hlut. Það er skömm ríkisstjórnarinnar að það sé að gerast en það er vandamál alls þjóðfélagsins vegna þess að við eigum allt undir því að traust í garð fjármálastofnana í landinu verði endurheimt.