140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

náttúruvernd.

225. mál
[14:40]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, með síðari breytingum. Í nóvember 2009 skipaði ég nefnd um heildarendurskoðun náttúruverndarlaga. Það frumvarp sem hér er lagt fram er í raun einn áfangi í þeirri vinnu. Nefndin hefur einnig lokið vinnu við gerð hvítbókar um náttúruvernd sem hefur hér verið rædd áður og er í kynningar- og umsagnarferli til 15. desember næstkomandi. Að því loknu verður vinna hafin við gerð heildarfrumvarps til laga um náttúruvernd.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á náttúruverndarlögum og fela þær aðallega í sér breytingar á ákvæðum 17. gr. laganna, um akstur utan vega, og 37. gr., um vernd tiltekinna jarðmyndana og vistkerfa. Ástæðan fyrir því að þessar greinar eru teknar fram fyrir heildarendurskoðun náttúruverndarlaga er sú að nefnd um endurskoðunina taldi sérstaklega brýnt að vinna úrbætur á þessum greinum laganna. Akstur utan vega hefur verið vaxandi vandamál þar sem landið er víða viðkvæmt fyrir ágangi og skemmdir á náttúrunni geta verið sýnilegar í langan tíma. Náttúruverndarlög hafa hingað til haft að geyma almenna reglu um bann við akstri utan vega þar sem hugtakið vegur er ekki skilgreint sérstaklega en hefur um skilgreiningu verið vísað til umferðarlaga. Skilgreining umferðarlaga er hins vegar víðtæk og hefur hentað illa við umfjöllun um vernd náttúrunnar þegar kemur að utanvegaakstri. Vegna þessa hefur reynst erfitt að afmarka hvenær akstur er óheimill á ógreinilegum slóðum og ákæra vegna brota á 17. gr. laganna hefur því sjaldnast leitt til sakfellingar.

Með frumvarpinu er lagt til að bæta úr þessu með því að hugtakið „vegur“ verði skilgreint í náttúruverndarlögum sem samræmist því sem tíðkast víða í löggjöf annarra ríkja, til að mynda í norskum lögum.

Ein af forsendum þess að tryggja góða umgengni við landið er að aðilar sammælist um hugtök og skilgreiningar, séu sammála um hvað megi gera og hvar. Í maí 2010 gaf umhverfisráðuneytið út aðgerðaáætlun til að draga úr náttúruspjöllum af völdum utanvegaaksturs og er þar meðal annars mælt fyrir um endurskoðun laga og bætta miðlun upplýsinga um leyfilegar akstursleiðir. Það frumvarp sem hér er mælt fyrir miðar að því að skerpa reglur um akstur utan vega og einnig er lagt til að lögin mæli fyrir um heimildir til aksturs á vegslóðum utan hins almenna vegakerfis.

Þannig er fjallað um að ráðherra skuli setja reglugerð um gerð kortagrunns yfir vegi og vegslóða þar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum. Lagt er til að Landmælingar Íslands annist gerð og uppfærslu grunnsins og að hann verði birtur í heild sinni í Stjórnartíðindum. Sú skylda verður þá lögð á útgefendur vegakorta að sjá til þess að upplýsingar á kortum þeirra samræmist kortagrunninum og er einnig lagt til að Umhverfisstofnun verði heimilt að knýja þá aðila sem ekki hlíta þessari skyldu til að hætta dreifingu óleyfilegra vegakorta. Þarna er um að ræða í raun og veru töluverða breytingu.

Þessi vinna er þegar í gangi en á vegum umhverfisráðuneytisins og í samstarfi við sveitarfélögin hefur um nokkurt skeið verið unnið að því að greina og kortleggja vegslóða á miðhálendinu. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að kortagrunnur um vegi og vegslóða hvað varðar hálendi Íslands liggi fyrir eigi síðar en 1. janúar 2014 og að grunnur hvað varðar láglendi liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2016. Hér er þess freistað að ná utan um þetta viðfangsefni hvað varðar heimilar leiðir í eitt skipti fyrir öll í löggjöfinni, þ.e. það sem lögin ráða við að halda utan um.

37. gr. náttúruverndarlaga, um sérstaka vernd, og það er hin greinin sem lagt er til hér að sé breytt, felur í sér almenna reglu, núverandi grein, um að forðast skuli eins og kostur er að raska tilteknum náttúrufyrirbærum. Svo virðist hins vegar sem ákvæðið hafi ekki haft tilætluð áhrif, svo sem við útgáfu framkvæmdaleyfa, gerð skipulagsáætlana, ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda og framkvæmd umhverfismats samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Með frumvarpinu er miðað að því að gera ákvæðið markvissara og stuðla að vandaðri málsmeðferð stjórnvalda.

Með frumvarpinu eru lagðar til tvær veigamiklar breytingar á verndarflokkum 37. gr. náttúruverndarlaga. Í fyrsta lagi er lagt til að stærðarmörk verndaðra votlendissvæða sé nú einn hektari að flatarmáli eða stærri í stað þriggja. Undanskildar stærðarafmörkun eru þó sjávarfitjar og leirur í ljósi smæðar slíkra svæða. Í öðru lagi er lagt til að nýr verndarflokkur bætist við, þ.e. birkiskógar og leifar þeirra. Votlendi og vatnalífríki eru viðurkennd sem sérstaklega mikilvæg vistkerfi á heimsvísu, samanber Ramsar-samninginn um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, sem öðlaðist gildi á Íslandi árið 1978. Ljóst er að verndun votlendis er talin forgangsmál í alþjóðlegri náttúruvernd, bæði vegna mikilvægis þess fyrir loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni og vegna þess hve mjög hefur verið gengið á þessi svæði víðast hvar í heiminum.

Á Íslandi hefur enn ekki verið unnið heildaryfirlit um tap á votlendi en talið er þó að að minnsta kosti 4 þús. ferkílómetrar votlendis hafi þegar verið ræstir fram. Rökin fyrir breytingum á stærðarmörkum votlendissvæða eru einkum þau að verndin nær nú einungis til um 60% óraskaðs votlendis, þ.e. núgildandi lög, en við breytinguna hækkar þetta hlutfall í um 95%. Mjög lítið er eftir af stórum, óröskuðum votlendissvæðum en mun algengara er að minni svæði hafi sloppið. Minni svæðin eru oft mikilvægur hluti af stærri heild og þó að svæðin séu minni í sniðum dregur það ekki úr þýðingu þeirra eða mikilvægi þeirrar vistkerfisþjónustu sem þau veita.

Í þessu frumvarpi eru líka nýmæli um að kveða á um vernd birkiskóga og leifa þeirra. Birki er ein af fáum náttúrulegum trjátegundum á Íslandi og teljast slíkir skógar til lykilvistkerfa. Þeir veita margvíslega vistþjónustu, svo sem við miðlun vatns og næringarefna, og binda birkiskógar í vexti kolefni úr andrúmslofti. Birkiskógar geta enn fremur dregið úr áföllum vegna náttúruhamfara sem við höfum þegar séð nýleg dæmi um, til að mynda með því að binda eldfjallagjósku þannig að hún nái síður að fjúka og valda skaða. Þá verja þeir jarðveg fyrir rofi en hin mikla jarðvegseyðing sem hefur átt sér stað hérlendis varð í mörgum tilvikum í kjölfar eyðingar skóga og kjarrlendis. Endurheimt birkiskóga felur í sér að stuðlað er að endurreisn líffræðilegrar fjölbreytni og vistþjónustu skóganna, svo sem vatnsmiðlunar, frjósemi og kolefnisbindingar. Þá eru birkiskógar landsins meðal fjölsóttustu útivistarsvæða landsins og eru birkigróin lönd eftirsóknarverð fyrir frístundabyggð og hafa orðið æ verðmætari fyrir landeigendur.

Erfðabreytileiki er mikill í íslensku birki og virðist það hafa mikla aðlögunareiginleika. Besta leiðin til að vernda erfðalindir birkisins er að stuðla að náttúrulegri útbreiðslu þess og varðveita leifar gamalla skóga og erfðaefni þeirra. Nú á dögum er birkiskógum einkum eytt eða raskað vegna mannvirkjagerðar sem er þó mjög takmarkað miðað við það sem áður hefur gengið yfir skóga landsins. Þá hefur sauðfjárbeit einnig í ýmsum tilvikum komið í veg fyrir útbreiðslu birkis.

Í frumvarpinu sem hér er lagt fram eru markmið hinnar sérstöku verndar 37. gr. náttúruverndarlaga sett fram með skýrari hætti en áður og er einnig afmarkað nánar hvaða náttúrufyrirbæri falla undir greinina. Lagt er til að skýrt verði að verndin nái eingöngu til jarðmyndana sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu við lok ísaldar, einnig að vernd fossa sé skýrari og nái til nánar tilgreinds umhverfis þeirra. Hið sama gildir um vernd hvera og heitra uppspretta þar sem lagt er til að hún nái einnig til lífríkis og virkrar ummyndunar þeirra og útfellinga, þar á meðal hrúðurs og hrúðurbreiða.

Til að tryggja frekar vernd samkvæmt 37. gr. laganna mælir frumvarpið fyrir um að allar framkvæmdir sem fela í sér röskun umræddra náttúrufyrirbæra verði háðar framkvæmdaleyfi eða eftir atvikum byggingarleyfi. Meginreglan er sú að bann er lagt við röskun þeirra náttúrufyrirbæra sem undir greinina falla nema brýna nauðsyn beri til og sýnt hafi verið fram á að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Lagt er til að í stað Umhverfisstofnunar beri leyfisveitanda að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands í ljósi sérþekkingar stofnunarinnar á gróðurfari, lífríki og jarðfræði landsins. Einnig er lagt til að leita beri eftir atvikum umsagna annarra fagstofnana.

Gert er ráð fyrir að rökstyðja beri sérstaklega ákvörðun um veitingu leyfis ef hún fer í bága við umsagnir. Enn fremur er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands haldi skrá yfir þau náttúrufyrirbæri sem njóta verndar en slík skrá mun meðal annars gagnast sveitarfélögum við gerð skipulagsáætlana og við afgreiðslu leyfisumsókna. Með frumvarpinu er lagt til að í skipulagslögum sé kveðið á um skýra skyldu til að gera grein fyrir þeim svæðum í skipulagsáætlunum sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum eða öðrum lögum, þar á meðal náttúrufyrirbærum samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga, en hingað til hefur verið mælt fyrir um skyldu til að gera grein fyrir náttúruverndarsvæðum við skipulagsgerð.

Til samræmis er lögð til sú breyting á lögum um mat á umhverfisáhrifum að með verndarsvæði sé einnig átt við fyrrgreind svæði sem njóta verndar, þ.e. í tengslum við mat á því hvort framkvæmd skuli matsskyld en við slíkt mat skal meðal annars taka tillit til þess hvort framkvæmdin sé á verndarsvæði.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins sem er fyrsta skrefið í átt til gagngerrar endurskoðunar á umhverfi náttúruverndar á Íslandi og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar.