140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að ég sé nokkuð dómhörð hér en svona blasir þetta við mér. Við höfum aldrei séð jafnmikla endurnýjun á Alþingi og við sáum í síðustu kosningum. Almennt er kallað eftir annarri umræðuhefð, maður heyrir það í samfélaginu. Þingmenn sjálfir hafa kallað eftir breyttum og bættum vinnubrögðum en stunda þau svo ekki. Miðað við alla þessa endurnýjun hélt ég að við værum að fara úr þessu gamla og úrelta í eitthvað nýtt og uppbyggilegra, effektífara, eitthvað sem mundi skila meiri árangri, vera árangursríkara. Að því leyti hefur þessi endurnýjun mistekist, af því að maður sér ekki að sá hópur sem núna er á þingi stundi slík vinnubrögð, því miður. Það má vel vera það sé dómharka að segja þetta en þannig blasir þetta við mér.

Maður átti von á því að hingað kæmi inn fjöldi ungs fólks með nýjar hugmyndir um hvernig mætti bæta vinnubrögðin og bæta ásýnd þingsins, bæta umræðuhefðina. Það er ekki reyndin. Hér eru alveg ofboðsleg frammíköll, dónaskapur frá hv. þingmönnum úr ræðustólnum o.s.frv. Málþóf nær sínum hæstu hæðum, maður hefur aldrei séð jafnharkalega farið með andsvarsréttinn og upp á síðkastið. Að þessu leyti hefur endurnýjunin mistekist.

Það er gaman að heyra hv. þingmann tala um foringjaræðið. Ég minntist alveg sérstaklega á það í ræðu minni. Hv. þingmaður hefur auðvitað reynslu úr þingflokknum sem er með bestu þekkinguna á foringjaræði. Það hefur auðvitað enginn flokkur komist með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með hælana í foringjaræði. En ég virði hv. þm. Pétur H. Blöndal fyrir það (Forseti hringir.) að hann hefur aldrei verið mjög ginnkeyptur fyrir foringjaræðinu, við höfum séð það á atkvæðagreiðslum hans í gegnum tíðina. Það er ágætt.