140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég vil hvetja til þess að þessari umræðu fari að ljúka, að við getum farið í að halda áfram dagskrá þessa fundar eins og hún liggur fyrir í dag.

Fyrir um það bil hálfum mánuði eða svo var gert ákveðið samkomulag í fjárlaganefnd um meðferð fjáraukalagafrumvarpsins. Við það var engin andstaða ef ég man rétt. Það voru 10 dagar, um það bil hálfur mánuður, þar sem gert var ákveðið samkomulag um afgreiðslu þessa máls innan nefndarinnar og lagt til að dagskrá þingsins yrði löguð að því. Þetta kemur meðal annars fram í minnihlutaáliti fjárlaganefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samkomulag varð um það í fjárlaganefnd að greiða fyrir framgangi fjáraukalaga fyrir árið 2011 með því að flýta umræðum um frumvarpið.“

Ég vil ekki trúa því, virðulegur forseti, að hv. fjárlaganefndarmenn ætli að ganga á bak þessum orðum sínum, brjóta það samkomulag sem þarna var gert. Ég vil hvetja þá til að sjá til þess að dagskrá fái að halda hér áfram eins og lagt var upp með hana í dag og við hefjum umræðu um fjáraukalagafrumvarpið eins og lagt var upp með og við höfum gert samkomulag um okkar á milli.