140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvað hv. þm. Björn Valur Gíslason er að fara með aðdróttunum sínum um alla þingmenn. Ég hvet hann bara til að tala skýrt og held að þessi þingmaður ætti ekki að vera með stórar yfirlýsingar miðað við þær upplýsingar sem hafa komið frá nánustu mönnum í kringum hann.

En látum það liggja á milli hluta, hér erum við að ræða framtíð sparisjóðakerfisins og ef það er vilji hæstv. ríkisstjórnar að fara yfir og efla sparisjóðina eru menn búnir að gera allt á skjön við það. Eins og hér hefur verið nefnt eru menn í fyrsta lagi að auka bæði gjöld, hvort sem það er í tengslum við innstæðutryggingarsjóðinn eða í kringum Fjármálaeftirlitið. Það er orðið langstærsta eftirlitið í heiminum, a.m.k. miðað við það sem við berum okkur saman við, og sömuleiðis sá launaskattur sem hér var nefndur. Það mun gera sparisjóðunum einstaklega erfitt fyrir.

Það eru þrjú ár síðan bankahrunið varð. Þá var sett á stofn, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir minntist á, Bankasýsla ríkisins. Hún kom með mjög skýrar tillögur um framtíð sparisjóðakerfisins. Það er skemmst frá því að segja að ekkert var gert með það. Síðan segir hæstv. ráðherra að menn þekki sögu Byrs og SpKef. Það er alrangt, virðulegi forseti, vegna þess að upplýsingar hafa ekki fengist ræddar. Það hafa ekki komið fram upplýsingar þrátt fyrir að eftir þeim hafi verið gengið þannig að það mál er í fullkomnu myrkri. Ég fer fram á það að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari betur yfir það mál.

Virðulegi forseti. Mörg rök hníga að því að hafa stofnanir eins og sparisjóði, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, en það er ekki verið að vinna að því núna. Sú umræða hefur ekki verið tekin. Við kölluðum eftir þessu þegar við breyttum lögum um sparisjóði strax eftir bankahrunið. (Forseti hringir.) Á það var ekki hlustað og nú horfum við á sparisjóðina týna tölunni og þannig mun það halda áfram ef ekki verður tekin stefna í þessum málaflokki.