140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Viðlagatrygging Íslands.

210. mál
[16:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get verið sammála honum um að það skipti miklu máli að skýrleiki ráði í þessu efni. Ég mun taka þau sjónarmið sem komið hafa fram í þessum samtölum með mér í þá vinnu sem nú er í gangi við endurskoðun laga um Viðlagatryggingu. Auðvitað þurfum við að læra af reynslu undanfarinna missira og horfa til þeirra mannvirkja sem, eins og hv. þingmaður nefndi ágætlega, engan hafði órað fyrir áður að þyrftu mögulega að vera hluti af því sem Viðlagatrygging tekur til en engum hafi dottið í hug hingað til að telja tryggingaskyld. Það er full ástæða til að fara yfir stöðuna í ljósi reynslu undanfarinna ára og vinna það mál áfram.

Ég mun fara yfir það með þeirri nefnd sem vinnur nú að endurskoðun á lögunum um Viðlagatryggingu til að passa að þeir þættir séu eins skýrir og ljósir og mögulegt er og að það séu eins fá óviss tilvik og mögulegt er.