140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Drekasvæði.

241. mál
[16:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek hér til umfjöllunar málefni Drekasvæðisins sem svo er kallað og liggur fyrir norðan og austan land. Fjölmargir þekkja vitaskuld til umræðu um það svæði sem hefur verið ofarlega á baugi á undanliðnum mánuðum og missirum. Þarna eru í húfi miklir hagsmunir fyrir Íslendinga og raunar fleiri þjóðir svo sem eins og Norðmenn og eftir atvikum Grænlendinga líka. Mjög hefur verið horft til þessa svæðis hvað varðar uppbyggingu á jarðefnaeldsneyti og hvort það sé yfirleitt finnanlegt á því svæði í vinnanlegum mæli.

Undirbúningur að því hefur verið, að því er ég best veit, viðvarandi á undanliðnum mánuðum og missirum. Nú ber svo við að gleðilegar fréttir berast um að það sé vinnanlegt magn á því svæði. Norðmenn eru farnir að líta svæðið mjög hýru auga. Ég veit að íslensk stjórnvöld eru sömu megin blaðsíðu.

Mig langar að beina nokkrum spurningum til hæstv. iðnaðarráðherra, frú forseti, um þetta téða svæði.

1. Hvað líður stofnun starfshóps um vinnslu jarðefna á svonefndu Drekasvæði?

2. Hvert hefur samstarf ráðuneytis og sveitarfélaga verið í þessum efnum?

3. Hvert hefur samstarf ráðuneytis og erlendra ríkja verið í þessum efnum?

4. Hverjar eru hugmyndir ráðuneytisins um miðstöð fyrir Drekasvæðið?

Frú forseti. Ég legg þessar spurningar ekki síst fram vegna viðræðna þess sem hér stendur og fleiri þingmanna Norðausturkjördæmis við sveitarstjórnarmenn á Norðausturlandi sem eru mjög áfram um að hreyfing komist á þetta mál. Á þessu svæði hefur orðið viðvarandi fólksflótti á undanförnum árum vegna einsleitni í atvinnulífi, því horfa menn vitaskuld til þessara þátta sem geta aukið mjög á fjölbreytni atvinnustarfa á Íslandi á komandi árum. Er það eitt helsta hagsmunamál Íslendinga í atvinnuuppbyggingu að horfa einmitt til aukinnar fjölbreytni starfa sem víðast á landinu.

Þess vegna, frú forseti, legg ég þessar spurningar fram fyrir iðnaðarráðherra í sem skemmstu máli. Hvar á vegi er þetta mál statt?