140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Íslandskynning.

123. mál
[17:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún getur verið stolt af framlagi sínu á fyrri árum þegar hún gegndi embætti menntamálaráðherra og ákveðið var að leggja af stað í þetta verkefni. Vafalaust voru ekki allir trúaðir á að þetta gæti gengið upp þannig að ég held að við getum sameinast um að gleðjast yfir því hve vel gekk.

Svarið við fyrirspurn hv. þingmanns er: Já, tvímælalaust tel ég að við eigum að fylgja þessu eftir og í raun er þegar farið að leggja drög að því hvernig megi gera það.

Þar sem ég var í fæðingarorlofi var ég ekki þátttakandi sjálf á þessari bókakaupstefnu en hef heyrt gríðarlega vel af henni látið. Þátttaka Íslands þótti takast með eindæmum vel. Íslenski skálinn hlaut mikið lof fyrir hönnun og uppsetningu. Fyrir utan alla þá dagskrá sem var í Frankfurt og gekk mjög vel að öllu leyti liggja eftir þýðingar á rúmlega 200 íslenskum bókum, ný þýðing á Íslendingasögunum í fimm bindum, bækur um Ísland á þýska málsvæðinu unnar í samstarfi við hátt í 100 bókaforlög. Bara svo að við áttum okkur á því er um umtalsvert fleiri bækur að ræða en fyrri heiðurslönd á bókamessunni hafa gefið út.

Auk bókakynningar á sjálfri bókamessunni í ár voru svo fjölmargar kynningar með þátttöku íslenskra rithöfunda á þýska málsvæðinu í kringum messuna sjálfa. Það voru ýmsir íslenskir listviðburðir í Frankfurt og víðar í Þýskalandi. Okkur telst til að alls hafi á þriðja hundrað viðburðir verið á vegum verkefnisins sem var kallað Sögueyjan Ísland. Fjárveitingar á fjárlögum voru 300 millj. kr. á árunum 2007–2011. Þetta telst vera umfangsmesta og dýrasta kynning á íslenskri menningu á erlendri grundu. Ég er ekki viss um að þetta þættu miklir peningar almennt þegar við ræðum markaðssetningu þó að þeir hafi verið stórir í heimi menningarinnar.

Ég held við getum verið nokkuð ánægð með hvað hefur fengist fyrir peningana ef horft er á þann árangur sem náðist — umfjöllun um Ísland, um rætur þjóðarinnar, um íslenskt samfélag og íslenska menningu — og allt sem eftir stendur. Þetta er ekki bara auglýsingaherferð sem varir í einhverja daga, þetta er miklu víðfeðmara.

Það liggur líka fyrir að þessari viðamiklu menningarkynningu þarf að fylgja vel eftir, tryggja sambönd og tryggja að sú þekking sem hefur skapast nýtist áfram svo að sú fjárfesting sem lögð var í verkefnið skili sér til framtíðar. Enn fremur þarf að efla umgjörð bókmenntakynningar, stuðning við bókaútgáfu og auka fjárframlög til að styrkja sviðið.

Ég vil greina frá því að til að tryggja lágmarkseftirfylgni í ár og á næsta ári — ljúka uppgjöri og frágangi ýmissa verkefna, halda við heimasíðu verkefnisins, tryggja að erlendir samstarfsaðilar geti haldið áfram að gefa út íslenskar bókmenntir í Þýskalandi og víðar — ákvað ríkisstjórnin á fundi sínum 10. ágúst sl., að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra, að leita eftir 20 millj. kr. fjárveitingu á aukafjárlögum 2011 og 25 millj. kr. á fjárlögum 2012. Við vinnum að því að búa í haginn hjá Bókmenntasjóði sem starfar samkvæmt lögum frá 2007 þannig að hann geti tekið við keflinu í síðasta lagi um mitt næsta ár. Ég vona að ég nái að mæla fyrir frumvarpi þess efnis nú fyrir jól sem hægt verði að taka til umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég tel mjög mikilvægt að styrkja lagagrundvöll sjóðsins og byggja á því sem fyrir er í þeim efnum, tryggja framhald á fjárveitingunum eftir 2012. Og ég held að það skipti miklu máli að við látum þetta verkefni lifa áfram.

Við sáum það líka á þessari bókakaupstefnu að hún gerði ekki eingöngu íslenskum bókmenntum gagn heldur íslenskri menningu almennt. Það skiptir miklu að við horfum til þess hvernig við getum látið allar kynningarmiðstöðvar listgreina vinna vel saman. Hv. þingmaður nefndi líka önnur ráðuneyti, væntanlega utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið sem er ráðuneyti ferðamála. Það skiptir miklu að við nýtum tækifærið og látum þetta kerfi vinna vel saman innbyrðis, bæði kynningarmiðstöðvarnar og síðan þvert á ráðuneyti.