140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

lögmæti breytinga á verðtollum búvara.

117. mál
[18:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil aðeins rifja upp söguna. Það var innflutningsbann á landbúnaðarafurðum á Íslandi alveg til ársins 1995. Þá var það afnumið vegna aðildar Íslands að GATT-samningnum sem Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, starfar eftir. Með samningnum skuldbatt Ísland sig til að hleypa mjög litlu magni erlendra landbúnaðarafurða inn á íslenskan markað á lægri tollum. Fyrst var miðað við 3% af innanlandsneyslu á viðkomandi vöru sem síðan var hækkað á næstu sex árum, og þar á eftir í 5%. Neyslan jókst stórlega á alifuglakjöti, svínakjöti o.fl. þó að verðlækkun hafi ekki orðið.

Markmiðið var, og það má ekki gleyma því — það er eins og menn gleymi því, ekki síst núverandi ríkisstjórn — að auka samkeppni við innlendan landbúnað og stuðla að lægra verði til neytenda. Menn gagnrýndu það strax í upphafi að ákveðið geðþóttavald ráðherra væri tengt þessum lögum og þeim reglugerðum sem þeim fylgdu. Og viti menn, vorið 2009 tók Jón Bjarnason, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við keflinu og breytti kerfinu. Þá hætti ráðuneytið að miða tollana við magnið og fór að miða þá við verð. Það leiddi til þess að menn hættu að flytja inn á tollkvótunum því að það var meira að segja hagkvæmara að flytja inn á hinum hefðbundnu ofurtollum en að flytja inn í gegnum tollkvótana. Menn kunna að segja: Bíddu nú við, en tollamálin eru hjá fjármálaráðherra. Fyrirspurn mín er eftirfarandi:

Hefur starfshópur ráðherra til að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis um lögmæti breytinga á verðtollum búvara lokið störfum? Ef ekki, hvenær er áætlað að þeirri vinnu verði lokið?

Það þarf að endurskoða það vegna vandræðagangs í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu varðandi tollafgreiðsluna og tollamálin.

Ég vil því vita afstöðu ráðuneytisins til þessara mála. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir breytingum á tollalögunum eða telur hann virkilega að þessar hækkanir og takmarkanir á tollalögum séu til hagsbóta fyrir bændur og neytendur? Ég frábið mér ef ráðherra ætlar að koma hingað og tala um um matvælaöryggi og fæðuöryggi í þessu samhengi. Um er að ræða breytingu á reglugerð sem hann gerði árið 2009 og hefur hún stuðlað að því að innflutningur á erlendum landbúnaðarafurðum er eiginlega orðinn að engu, það er vegna þeirrar stórfelldu breytingar sem ráðherra beitti sér fyrir (Forseti hringir.) gegn neytendum.