140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

HPV-bólusetning.

235. mál
[19:47]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki svör við spurningum hv. þingmanns varðandi aukningu á krabbameini hjá karlmönnum eða áhættuþætti hjá þeim. Þegar matið kom um að mestu skipti að ná til allra stúlkna var auðvitað verið að skoða það sem er verið að reyna að fyrirbyggja sem er smitið hjá stúlkunum. Það er auðvitað full ástæða til að fylgjast með hinu og skoða það í framhaldinu.

Varðandi það hvort foreldrar geti valið bólusetningu fyrir drengina er það með svipuðum hætti að ég get ekki svarað því beint hvort til er bóluefni til að verða við því. Ef svo er ætti í sjálfu sér ekkert að vera því til fyrirstöðu að drengir fengju bólusetningu að ósk foreldranna með þeim kostnaði sem því fylgir.

Varðandi aðra þætti sem hv. þingmaður nefnir sem er heilbrigði ungs fólks er auðvitað full ástæða til að veita því athygli. Það er nefnilega hárrétt sem hv. þingmaður sagði að náðst hefur verulegur árangur á ýmsum sviðum í sambandi við unglinga og yngri aldursflokka í framhaldsskólunum, sérstaklega þó á grunnskólastiginu, varðandi heilsusamlegt líferni. Þar hafa líka verið að koma inn bæði heilsueflandi grunnskólar og heilsueflandi framhaldsskólar sem eru ná nánast hringinn í kring um landið. Þar er kynheilbrigði einn af þáttunum og það skiptir mjög miklu máli að taka einmitt á þeim þáttum. Það hefur lengi verið ljóst að unglingar byrja kynlíf mjög snemma, hafa átt marga bólfélaga eins og hér kom fram, og enda þótt það hafi breyst mikið á undanförnum árum eignast stúlkur, margar, börn mjög ungar. Það hefur að vísu breyst mikið á Íslandi á undanförnum árum og fóstureyðingum hefur fækkað. En við þurfum að gera miklu betur, það er augljóst að þarna hafa ríkt viðhorf sem hafa ekki tekið á þessu máli. Við höfum kannski ekki verið nægilega vakandi yfir þessum þáttum og ég fagna því þeim ábendingum sem koma fram í fyrirspurninni. (Forseti hringir.) Við þurfum auðvitað að fylgja því sameiginlega eftir að við gerum betur þar.