140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Aðspurð hér áðan svaraði hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir því að formaður VG og þingflokksformaður væru menn að meiri ef þeir styddu hæstv. ráðherra Jón Bjarnason. Nú vitum við að svo er ekki. Þá er það með orðum hv. þingmanns þannig með þessa forustumenn VG að þeir eru ekki menn að meiri. Við heyrðum í gær hvernig hæstv. fjármálaráðherra, formaður VG, brást við þegar hann hafði fjórum sinnum tækifæri til að lýsa yfir stuðningi við þennan ráðherra úr eigin röðum. Hann svaraði því með þögninni og við vitum að stundum getur þögnin verið mjög ærandi. Hún getur verið mjög hávær en hún talar líka stundum sínu eigin máli. Við vitum öll hvaða skilaboð hæstv. fjármálaráðherra, formaður VG, sendi hér í gær. Þau eru einföld og þau eru svona: Forusta Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styður ekki hæstv. ráðherra Jón Bjarnason til setu áfram á ráðherrastóli. Svo einfalt er það.

Í umræðum í gær svaraði hins vegar hæstv. ráðherra dálitlu þegar kom að þessu máli. Hæstv. ráðherra greindi okkur frá því að skipuð hefði verið ráðherranefnd til að fara með endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og greindi frá því að í þeirri nefnd sætu hæstv. velferðarráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. En hæstv. fjármálaráðherra sagði okkur líka að hæstv. sjávarútvegsráðherra fengi hlutverk, hann fengi það hlutverk að við hann ætti að hafa samráð, rétt eins og sérfræðingana, embættismennina, í ráðuneyti hæstv. ráðherra.

Þarna fer ekkert á milli mála hverjir eiga að vera húsbændurnir og hverjir eiga að vera hjúin í þessum samskiptum, enda kom það fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann sagði, með leyfi virðulegs forseta:

Þau, og vísaði þá til hæstv. velferðarráðherra og menntamálaráðherra, eru verkstjórarnir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna tveggja. Þannig er þetta hugsað og nú spyr ég: Hvaða stöðu hefur þessi ráðherranefnd? Það eru sérstök lög um þessa ráðherranefnd (Forseti hringir.) og hvaða stöðu hefur hún? Liggur til dæmis fyrir eitthvert skipunarbréf? Ég held að við hljótum að kalla eftir því að fá þessar upplýsingar um hvort þessi ráðherranefnd sé þá skipuð með formlegum hætti (Forseti hringir.) og sambærilegum og gert er ráð fyrir í stjórnarráðslögunum.