140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:18]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessum áfanga sem við erum að ná hér í dag og tek fram að þetta er jafnframt mjög brýn áminning fyrir okkur sem styðjum núverandi ríkisstjórn um þau fjölmörgu verkefni sem fram undan eru á kjörtímabilinu og um það hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem styðjum ríkisstjórnina að þjappa okkur saman um hana og halda áfram á þeirri vegferð. Þetta er dæmi um mál sem enginn annar meiri hluti hefði sett fram í þinginu, rétt eins og fjölmörg önnur sjálfsögð réttindamál sem lengi hefur verið barist fyrir sem þessi ríkisstjórn hefur stutt og sett á dagskrána. Þess vegna er þetta mikið fagnaðarefni, en um leið brýn áminning fyrir okkur öll.