140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann gerði að umtalsefni í upphafi ræðu sinnar þann árangur sem náðst hefði í ríkisfjármálum, þ.e. að nú stefndi í að hallinn á fjárlögum yrði um 1,5% af landsframleiðslu eða rétt rúmir 20 milljarðar fyrir árið 2012.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi áhyggjur af innbyggðum halla í fjárlögunum sjálfum sem ekki er tekið tillit til þegar talað er um að halli á ríkissjóði verði rétt rúmir 20 milljarðar. Sá halli gæti hæglega aukist um 14–30 milljarða vegna þeirra þriggja óvissuþátta sem klárlega eru í frumvarpinu. Þegar hv. þingmaður því talar um batann sem verði á árinu 2011 og yfir á 2012 eru innbyggð í fjárlög 2012 ákveðin hættumerki um að hallinn verði meiri þó svo að allar aðrar forsendur frumvarpsins gangi eftir, hvort sem er á tekjuhlið eða gjaldahlið. Og þá er ég bara að tala um þá þætti sem eru þarna inni.

Ég hef af því verulegar áhyggjur hvernig við ætlum að loka fjárlagagatinu, sem er 20–40 milljarðar. Það er mitt mat að búið sé að fara eins langt í tekjuöflun og niðurskurði og hægt er, þó að hægt sé að forgangsraða upp á nýtt, ég er sammála hv. þingmanni um það. En þegar Vinstri grænir eru farnir að hafa orð á því að ekki sé hægt að ganga lengra í tekjuöflun hlýtur að vera komin ákveðin endastöð í því. Ég hef því verulegar áhyggjur af því hvernig við ætlum að loka fjárlagagatinu.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að það sem síst hefði gengið hjá hæstv. ríkisstjórn væri atvinnuuppbyggingin. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki verulegar áhyggjur af því hvort hallinn verði hugsanlega meiri og hvort ekki verði erfitt að loka fjárlagagatinu í restina.