140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[00:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að vera bjartsýnn og jákvæður, það er alltaf gott. Mér finnst að mikil breyting hafi orðið á vinnu fjárlaganefndar og eiginlega öll í jákvæða átt. Ég hef upplifað margar umræður um fjárlög, 2. umr., og í eina tíð var þetta mest umræða um fíkniefnahund, uppeldi hans í Vestmannaeyjum, hvort það voru 2,1 milljón í það, og að byggja torfkofa og að þýða bækur og svona dótarí. Ég hef nokkrum sinnum haft á orði að þetta minnti mig á aðalfund í stóru hlutafélagi þar sem verið væri að fjalla um skýrslu framkvæmdastjórnar, um það sem hefði verið gert og það sem til stæði að gera. Þetta er alveg horfið, sýnist mér, og það er mjög jákvætt, ég ætla að taka það fram. Svo er málið líka tiltölulega snemma á ferðinni, búið að samþykkja fjáraukalögin, það er nú jákvætt, manni fannst það kannski fullhratt en það er líka smekksatriði.

Ég held að menn eigi að vera metnaðargjarnir og segja að ríkisreikningur og lokafjárlög eigi að liggja fyrir 15. janúar næsta ár, það er bara markmið, þetta segjum við öll og þá verður það þannig. Þetta er hluti af þeim aga sem þarf. Ég man eftir því, það er reyndar dálítið langt síðan, að lokafjárlög átta ára voru samþykkt á einu bretti. Það er dálítið langt síðan og það var mikið agaleysi. — En þetta var jákvæði hlutinn í ræðu minni og hann var frekar stuttur.

Nú ætla ég að fara yfir í neikvæða hlutann eða þannig, ég veit það nú ekki. Ég ætla að byrja á að nefna að klukkan er að verða eitt og við erum að tala um fjárlög íslenska ríkisins, 2. umr., sem marka stefnu ríkisstjórnarinnar til næstu ára. Fjárlögin marka stefnu ríkisstjórnarinnar, þeir sem styðja ríkisstjórnina styðja fjárlögin, og menn bera ekki meiri virðingu fyrir þeim málaflokki og stefnu ríkisstjórnarinnar en svo að málið er rætt um miðja nótt, enda er þetta dimmt og loðið eins og ríkisstjórnin sjálf og stefna hennar, finnst mér. Mér finnst það algjör vanvirða við fjárlögin að þau skuli vera rædd á þessum tíma. En ekki kvarta ég.

Ég rakst svo á það eins og fleiri að í fyrramálið eru fundir í nefndum, ég á til dæmis að mæta á fund í velferðarnefnd klukkan níu, það eru átta tímar þangað til og ég er ekki búinn með ræðuna, þannig að vinnubrögðin eru ekki alveg í lagi. Ekki kvarta ég heldur yfir því. En ég tók eftir því að efnahags- og viðskiptanefnd ætlar líka að hittast klukkan níu í fyrramálið og ætlar að ræða um endurmat á tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. Þetta er á netinu, mér var bent á þetta utan úr bæ og svo hefur þetta verið nefnt hérna líka. Maður spyr sig: Bíddu, hvað er að gerast? Erum við ekki að ræða í 2. umr. um fjárlögin og á ekki að greiða atkvæði um þetta á morgun? Á þá hugsanlega að fara að breyta allri tekjuhliðinni?

Þá lítur maður á nefndarálitið frá meiri hlutanum sem markar stefnuna, þar stendur um tekjuhlutann, frú forseti, og menn þurfa ekkert að vera neitt voðalega langeygir, ég ætla að fá leyfi til að lesa þennan texta. Ég ætla að lesa þetta hægt svo að þetta virki stærra.

„Tekjuáætlun frumvarpsins hljóðaði upp á 521,4 milljarða kr., en sú áætlun hefur nú verið lækkuð um rúmar 35 milljónir kr.“

Meira var það nú ekki um tekjuáætlunina, frú forseti. Það hefur sem sagt engin nefnd fjallað almennilega um þetta og þessar 35 milljónir — þetta eru ekki einu sinni skekkjumörk. Geimvísindamönnum þætti þetta gott að ná þessum mörkum í mælingum, þetta eru 0,01 prómill, eitthvað svoleiðis, 35 milljónir af 521 þúsund milljónum. Það er sem sagt ekki mjög stórt hlutfall.

Hinn 17. janúar, fyrir nærri því ári, óskaði ég eftir því við forsætisnefnd að hún mundi biðja Ríkisendurskoðun að skoða ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins sem ekki hafa komið fram á fjárlögum eða fjáraukalögum. Enn hefur ekki komið skýrsla um þetta frá ríkisendurskoðanda en ég vil einmitt fá fram hvaða skuldbindingar eru ekki færðar í fjárlögum. Ráðherrar hafa lýst því yfir, bæði þessarar ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna, að innstæður í bönkum séu tryggar. Þeir geta að sjálfsögðu ekki sagt að það sé ríkisábyrgð á þeim því að það er ekki ríkisábyrgð á þeim. Þetta er eina tryggingin sem innlánseigendur hafa, það er þessi yfirlýsing ráðherra.

Svo bendi ég á að Icesave-samningurinn hafi aldrei nokkurn tíma komið fram í fjárlögum eða fjáraukalögum og var hann þó samþykktur sem lög frá Alþingi — fyrir utan að fjármálaráðherra skrifaði undir og það hýtur að vera eitthvað að marka það þegar hæstv. fjármálaráðherra ríkisins skrifar undir samning. Það var aldrei getið um það í fjárlögum eða fjáraukalögum á þeim árum.

Svo er það ríkisábyrgð á innlánum í Straumi, SPRON og lán til Saga Capital, þetta eru allt saman svona óljósar upplýsingar sem eru núna að koma í hausinn á okkur. Skuldbinding vegna B-deildar LSR og ábyrgð á réttindum í A-deildinni, þar er ábyrgð á réttindunum. Iðgjaldið breytist og það er iðgjald sem ríkið greiðir og það vantar 45 milljarða þar inn, og vantar reyndar 400 milljarða í B-deildina. Þetta er allt saman ófært. Skuldbindingar Tryggingastofnunar vegna gildandi laga, það er náttúrlega gífurleg skuldbinding sem ekki hefur verið metin og skuldbinding vegna launa ríkissjóðs og sitthvað fleira. Tónlistarhúsið Harpa, ég hef hvergi séð það í fjárlögum. Þetta er það sem ég bað Ríkisendurskoðun um að koma með skýrslu um og mér skilst að sú skýrsla sé að detta í hús eða ég vona það alla vega. Það er nefnilega mjög mikilvægt fyrir skattgreiðendur að vita hvað þeir skulda eins og bara fyrir alla aðra. Hvert einasta heimili þarf að vita hvað það skuldar. Það er það fyrsta sem maður hefur í huga. Ef einhver lendir í vandræðum og hættir að opna gluggaumslögin þá er illa fyrir honum komið. Þegar ég var í því að aðstoða fólk við fjármál sín var það eitt af því fyrsta sem ég gerði að aðstoða það við að kortleggja skuldirnar og það er líka mikilvægt fyrir ríkissjóð að kortleggja skuldirnar.

Ég lagði líka fram fyrirspurn um daginn sem ég fékk mjög undarlegt svar við. Ég bað um skriflegt svar við því hvaða innlánsstofnanir hafa fengið eða er fyrirhugað að fái ríkisstuðning frá september 2008 —fyrirspurnina má finna á þskj. 222, auðvelt að muna það. Ég spurði líka hve há ríkisaðstoðin hefði verið eða yrði í hverju tilfelli. Ég var að spyrja ósköp venjulegra spurninga. Og svo spurði ég hver væri fjárhæð innlána hjá hverri stofnun. Og það sem á bak við þetta var var hreinlega að vita hvort þessi innlán hefðu hækkað eða lækkað frá því að þessar stofnanir voru komnar í vandræði. Það var til dæmis vitað að Sparisjóður Keflavíkur var kominn í vandræði fyrir löngu, um mitt ár 2009 var hann kominn í veruleg vandræði. Það gjaldþrot datt ekkert af himnum ofan. Menn vissu af því og það er spurning hvernig innlánin þróuðust sem með yfirlýsingu ráðherra vörðuðu ríkisábyrgð, hvernig þróuðust þau á þessum tíma á vakt hæstv. fjármálaráðherra, þetta var á hans vakt og hann vissi þetta allan tímann.

Ég fæ svar frá fjármálaráðuneytinu þar sem þeir segja, og það er þakkarvert, að þeir geti ekki svarað þessu strax, muni svara þessu 20. desember. En þeir segja: Hins vegar teljast þær upplýsingar sem óskað er eftir í 4. lið fyrirspurnarinnar, um fjárhæðir innlána, ekki opinbert málefni í skilningi laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Ég bara vissi ekki hvort ég væri að lesa rétt, að heildarinnlán hjá ákveðinni stofnun séu ekki opinbert málefni. Ársreikningar eru birtir, þetta eru fyrirtæki, þetta eru hlutafélög flest hver eða alla vega sparisjóðir og það á að birta ársreikninga í ársreikningaskrá. Í ársreikningum koma innlán fram þannig að maður er bara gáttaður. Það stendur ekki til að veita mér þessar upplýsingar. Ég spyr, frú forseti, og það læðist að mér ógnvænlegur grunur, ég ætla bara ekki að segja hvað mig grunar því að það er ekki sérstaklega skemmtilegt, að ekki eigi að veita upplýsingar um það hvað þessi ríkisábyrgð hefur vaxið mikið.

En þarna vantar sem sagt heilmikið, það eru margar eyður. Hvað gerðist með Saga Capital? Það voru veittir, minnir mig, 19 milljarðar með 2% vöxtum og verðtryggingu — gufaði þetta bara upp eða hvað varð af þessu? Það má vel vera að fulltrúar í fjárlaganefnd hafi fengið upplýsingar um það; VBS líka og Sparisjóður Keflavíkur, BYR, Sjóvá, þetta er sem sagt alveg heilmikið af óljósum skuldbindingum sem virðast einhvern veginn annaðhvort hverfa, koma seinna inn eða eitthvað slíkt.

Ég ætla líka að taka undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, hann nefndi vaxtagjöldin sem á dularfullan hátt lækkuðu um 591 millj. kr. vegna þess að menn fóru úr óverðtryggðu láni, þar sem vextirnir eru borgaðir strax, nafnvextir, yfir í verðtryggt lán, þar sem hluti af vöxtunum, verðbæturnar, eru lánaðir án þess að það komi fram í lánsfjáráætlun. Þetta leiðir hugann að því hvort ekki þurfi að skoða þetta betur í fjárlaganefnd og setja reglur þannig að ákveðið kerfi sé á þessu. Annaðhvort sé allt saman verðtryggt eða allt saman óverðtryggt, og ég hallast frekar að því seinna, að áfallnar verðbætur séu þá jafnan færðar sem lánsfjárheimild.

Síðan var rætt um það í kvöld að vextir ríkissjóðs væru gífurlega háir og þá benti ég einmitt á að hluti af þessum vöxtum væru verðbætur, þ.e. í mörgum löndum þar sem ríkissjóður skuldar, í dollurum og evrum o.s.frv., er um það bil 3% verðbólga, og raunar um allan heim um þessar mundir. Það þýðir að þessar myntir rýrna um 3% á ári þannig að þeir vextir sem ríkissjóður greiðir eru ekki raunvextir. Hins vegar þróast þær tekjur sem ríkissjóður hefur væntanlega eins og verðlag, tekjur fólks hafa sem betur fer hangið í verðbólgunni síðustu tvö árin. Þar af leiðandi eru tekjur ríkissjóðs nokkurn veginn í takti við verðlag og hækka sem slíkar en skuldirnar rýrna þá um allan heim, innan lands um 5% og líka erlendis. Neikvæða hliðin á því er að sjálfsögðu sú að sparifé rýrnar líka sem getur haft geigvænlegar afleiðingar en við erum ekki að ræða það hér og nú.

Ég ætla líka að ræða ýmislegt smotterí, hér er heilmikill doðrantur um alls konar smotterí. Maður veltir því fyrir sér hvað fólk sé eiginlega að gera. Fyrst ætla ég að byrja á Kvikmyndamiðstöðinni, kvikmynda-eitthvað kemur víða fyrir í þessum breytingum. Kvikmyndamiðstöð Íslands fær 10 milljónir, svo fær hún 38 milljónir o.s.frv. og ég velti því fyrir mér hvort þetta tengist því að ákveðinn þingmaður hótaði að hætta stuðningi við ríkisstjórnina nema Kvikmyndasjóður fengi peninga, hvort verið sé að kaupa stuðning hans við fjárlagafrumvarpið. Þetta er ekki nógu sniðugt, finnst mér. Á bls. 29 er talað um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, 246,5 millj. kr., og þetta kemur víða fyrir. Ég ætla ekki að tala meira um það.

Svo er hér talan 0,1 milljón og það er heilmikill texti, ég ætla ekki að lesa hann því að meðan ég er að lesa hann gæti rekstur þingsins kostað meira, bara rétt á meðan ég er að lesa hann. Þar að auki er búið að ræða þetta í ríkisstjórn, þetta er samþykkt af ríkisstjórn, breyttar forsendur — það eru 100 þús. kr. sem menn eru virkilega að tala um sem einn lið. Um Skrifstofu um vernd gróður- og dýraríkis á norðlægum slóðum, gerð er tillaga um 100 þús. kr. fjárveitingu til greiðslu fasteignaskatts af húsnæði skrifstofunnar, Borgum og öllu því. Það er alveg með ólíkindum að menn skuli leyfa sér að koma með svona smotterístölur, eyða allri þessari orku og vinnu í þetta. Húsafriðunarnefnd á bls. 47, hálf milljón o.s.frv. Þetta hef ég svo sem oft gagnrýnt, menn þurfa að átta sig á því hvað skiptir máli og hvað skiptir ekki máli. Ég mundi segja að allar upphæðir undir 10 milljónum skipti bara ekki máli í sjálfu sér, bara út með þær.

Ég ætla svo rétt að fara í gegnum umsögn meiri hluta velferðarnefndar og gagnrýni sem hún hefur sett fram, með réttu, á að bætur almannatrygginga hækki ekki eins og laun, sérstaklega ekki mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur og slíkt sem hækka bara ekki neitt. Síðan er athugasemd Öryrkjabandalagsins sem er undirrituð af Guðmundi Magnússyni, formanni þess. Ég ætla ekki að lesa það allt en þar stendur að Öryrkjabandalagið krefjist þess að ríkisstjórnin hverfi þegar í stað frá áformum sínum um frekari skerðingu á lífskjörum öryrkja fjórða árið í röð. Áratugalöng réttindabarátta öryrkja hefur verið færð aftur um fjölda ára, segir í bréfi frá Öryrkjabandalaginu og þar er einmitt nefnt þetta með mæðra- og feðralaunin, umönnunargreiðslur, meðlagsgreiðslur o.s.frv. Þetta er sem sagt ekki alveg nógu gott. Einnig er fjallað um húsnæðismál í þessu nefndaráliti og þar er talað um 33 milljarða sem við samþykktum til Íbúðalánasjóðs en ekki er talað um að gera neitt fyrir leigjendur, reyndar talað um að skoða eigi þau mál. Þetta er sem sagt um velferðarnefndina. Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í það en það er greinilegt að velferðarkerfið á undir högg að sækja. Menn þurfa að vera á tánum og passa að það gerist ekki of harkalega.

Talað er um skatta á lífeyrissjóði, það eru 1.400 millj. kr., 1,4 milljarðar, sem eru sérstakar vaxtabætur sem ekki er búið að ganga frá gagnvart lífeyrissjóðunum og ég vara eindregið við því að lífeyrissjóðirnir séu á einhvern hátt lestaðir. Af hverju geri ég það, frú forseti? Það er vegna þess að sumir lífeyrissjóðir njóta ríkisábyrgðar og aðrir ekki. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins nýtur ríkisábyrgðar, hver einasta lestun á hann skiptir bara ekki máli því að ríkissjóður borgar það. Það er ekki þannig að það séu einhverjar gífurlegar eignir í þeim sjóði, bæði A- og B-deildin eru með mínus. Þar vantar mikið fé til að mæta skuldbindingum og ef hann er lestaður, hversu lítið sem það er, þá vex bara skuldbinding ríkissjóðs sem því nemur. En almennu sjóðirnir munu þurfa að skerða lífeyri sinn af því að ekkert stendur á bak við lífeyrinn þar annað en eignir sjóðanna. Ef þeir eru lestaðir þurfa sjóðfélagar þeirra að sætta sig við lægri lífeyri eða hærra iðgjald og þeir þurfa jafnframt að borga í sköttum framlag ríkissjóðs til opinberu sjóðanna. Ég vara því eindregið við því að menn láti sér nokkurn tíma detta í hug að lesta lífeyrissjóðina nokkuð út af þessari stöðu. Og ég sé ekki hvernig menn geta lagað þessa stöðu vegna þess að B-deildin byggir á eignarrétti og það er ekki svo auðvelt að skerða það.

Svo er verið að tala um að lækka það sem menn geta dregið frá skatti í séreignarsjóð og ég skil það bara ekki, að menn skuli lækka það úr 4% niður í 2%, það þýðir bara að sá sparnaður minnkar. Það getur vel verið að ríkissjóður fái þá eitthvað pínulítið meiri tekjur en það er mjög varasamt að hverfa frá sparnaði sem er þó að þessu leyti frjáls vegna þess að frjáls sparnaður á Íslandi er sáralítill miðað við það sem gerist í útlöndum. Í innlánsbönkunum er hann um 600 milljarðar, það eru um 300 milljarðar í séreignarsjóðum, þetta er um 900 milljarðar en þvingaði sparnaðurinn í lífeyrissjóðunum er um 2.000 milljarðar. Ég hugsa að víðast hvar í heiminum sé það öfugt og frjáls sparnaður sé miklu meiri. Þá er ég búinn að tala um lífeyrissjóðina og mér finnst mjög slæmt ef menn ætla að fara að hvetja fólk til minni sparnaðar.

Þá kem ég að veiðileyfagjaldinu sem á að hækka umtalsvert og stöðu sjávarútvegs. Það er bara kapítuli út af fyrir sig. Ég kem inn á það rétt á eftir hvernig menn ganga fram í því að hrella atvinnulífið, það er stöðugt verið að hrella þá sem hafa fjárfest, þá sem hafa lagt peningana sína, áhættufé, í atvinnulífið. Hér er lagt til að veiðileyfagjaldið sé hækkað upp í 8 milljarða. Það er gefið í skyn að í raun skipti þetta ekki máli, það sé bara hægt að hækka þetta eftir þörfum, að ríkissjóður geti bara hækkað þetta gjald eins og honum sýnist án þess að spyrja kóng eða prest. Það finnst mér vera mjög neikvætt merki til atvinnulífsins og sérstaklega til sjávarútvegsins sem þarf að berjast við margt annað sem er neikvætt.

Minni hlutinn kemur með tvær tillögur sem eru af hinu góða. Í fyrsta lagi er lagt til að skattur á séreignarsparnað verði tekinn til ríkisins. Þetta er eign sem ríkið á og séreignarsparnaðurinn hefur þann eiginleika að hann er frjáls sparnaður, bara nákvæmlega eins og þegar menn leggja inn í banka. Þess vegna eru rök fyrir því að taka skattinn strax en það þarf ekki að koma niður á þeim sem spara eða á fyrirtækjunum. Sjálfstæðisflokkurinn lagði nefnilega fram tillögu í fyrra, og mun væntanlega gera það aftur, um að þessi sparnaður verði útfærður á þann veg að lífeyrissjóðirnir gefi út skuldabréf sem nemur þessum skatti sem er á þessum inneignum, séreignum, og ríkissjóður og sveitarfélög — ríkissjóður fær um 86 milljarða sem mun væntanlega laga stöðu hans umtalsvert og lækka skattgreiðslu hans á næsta ári þá þegar, og lífeyrissjóðirnir gefa út skuldabréf til ríkissjóðs sem hann getur svo selt á markaði. Eru til nokkur bréf sem eru eins góð og til dæmis bréf frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, þar sem hann er skuldari? Þetta er eina beina skuldin sem lífeyrissjóðir bera þannig að þetta eru með tryggustu bréfum sem til eru og yrði mjög spennandi að selja slík bréf. Sveitarfélögin fengju sömuleiðis eitthvað um 40 milljarða ef ég man rétt, þetta er eftir minni og það er þörf á þeim bæjum fyrir að fá þá peninga og þeir geta selt þessi skuldabréf sömuleiðis og þá mundi það koma þannig út eins og ríki og sveitarfélög séu séreignarsparendur með manninum. Þegar hann fer svo að taka lífeyri verður greitt af þessum skuldabréfum og ríki og sveitarfélög fá sömu ávöxtun og maðurinn nýtur á þeim tíma eins og séreignarsjóðurinn gefur, mismunandi eftir sjóðum, og þannig yrði enginn í raun var við þetta, hvorki séreignarsjóðirnir né maðurinn sjálfur. Svo þegar hann tekur sparnað sinn út þá er skatturinn sem hann átti að greiða gerður upp, þetta er svona lýsing á þessari tillögu.

Svo er önnur breytingartillaga á þskj. 401, hin var á þskj. 400. Hún er eiginlega alveg bráðnauðsynleg og það eru þessar óvissuskuldbindingar í 6. gr. Það er náttúrlega ekki hægt að setja inn í 6. gr. skuldbindingu sem engin tala er við, hún er bara galopin. Það er til dæmis með SpKef, þar er bara talað um að það sé einhver heimild en menn vita að þetta er að lágmarki 11,2 milljarðar og getur farið upp í 20 jafnvel 30 milljarða ef verðmæti eignanna hefur verið þanið. Þessi tillaga gengur þannig út á það að fjárlaganefnd fái, áður en þessi heimild er nýtt, til skoðunar þá niðurstöðu sem liggur fyrir í krónum og aurum, þ.e. í milljörðum kr. þannig að alla vega sé þá hægt að samþykkja það í fjárlaganefnd þó að ekki sé það gert á Alþingi. Auðvitað væri best að gera það á Alþingi hverju sinni þannig að fjárlögin yrðu að því leyti lögð fram. Ég fellst alveg á að það getur verið erfitt að segja að skuldin sé 20 milljarðar og fara svo að semja við viðkomandi aðila um að þeir borgi bara 11,2 en auðvitað mætti standa í fjárlögunum að skuldbindingin sé allt að 20 milljörðum. Þá eru komin efri mörk fyrir tölunni. En þetta eru þessar óvissuskuldbindingar sem eru í 6. gr. ákvæðunum og auðvitað ættu 6. gr. ákvæðin ekki að vera til nema einhverjar íbúðir eða eitthvað slíkt sem er eitthvert smotterí, eitthvað sem er undir 100 milljónum.

Við getum ekki rætt um fjárlög á Íslandi nema að skoða umhverfið, þ.e. Evrópusambandið og þær hræringar sem þar eru. Ég hef dálítið hlustað á þýskar sjónvarpsstöðvar og þar hefur, reyndar minna síðustu 2–3 vikurnar, eiginlega verið stríðsletur í 3–4 mánuði vegna ástandsins í Grikklandi, Ítalíu o.s.frv. Þar er neyðarfundur eftir neyðarfund og tvær persónur taka ákvörðun fyrir allt Evrópusambandið, það eru Merkel, kanslari Þýskalands, og Sarkozy, forseti Frakklands, og svo er hinn nýi forsætisráðherra Ítalíu kominn inn í klúbbinn, fyrrverandi kommissar Evrópusambandsins. Þetta er óskaplega alvarleg staða og kanslari Þýskalands sagði að þetta væri ein erfiðasta staða sem Evrópusambandið hefði lent í frá stofnun og er eflaust rétt.

Nú geta menn haft á þessu ýmsar skoðanir út af því að Ísland er að sækja þarna um aðild. Mér finnst það ekki koma málinu neitt við, þetta er ekki spurningin um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er miklu stærra vegna þess að ef evran skyldi fara og sérstaklega ef hún fer harkalega, sem guð gefi að gerist ekki, þá hefur það óskapleg áhrif á Ísland. Evrópusambandið er mjög stór viðskiptaaðili Íslands og mun hafa áhrif á öll þau fjárlög sem við erum að samþykkja, það yrði mjög alvarleg staða. Þetta gæti stöðvað ferðamannastraum frá þessum löndum, jafnvel á heimsvísu, það gæti stöðvað útflutning eða hægt á honum o.s.frv., sérstaklega fiskútflutning og það er mjög alvarlegt mál. Ég vona því eindregið að mönnum takist að leysa þessi vandamál með evruna og mér sýnist allt stefna í það þessa dagana. En mér finnst að menn þurfi að átta sig á því hvað þetta þýðir fyrir fjárlögin af því að við erum að ræða þau. Ég vil undirstrika að þetta er miklu stærra mál en aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu, það hefur miklu meiri afleiðingar þegar 500 milljóna manna efnahagsveldi missir allt í einu myntina sína. Menn vita ekki einu sinni hvað gerist. Vonandi kemur ekki til þess og alls ekki.

Þegar við ræðum fjárlög hljótum við að skoða yfirsýnina. Ég hef verið að ræða dálítið mikið tæknilega hluti og má segja að ríkisstjórnin hafi náð góðum árangri á vissum sviðum. Verðbólgan er komin niður í um 5%, úr þessum 20% sem hún var í stuttu eftir hrun, vextir eru komnir í þokkalegt stand, líka 4–5%, stýrivextir Seðlabankans, og atvinnuleysi er komið niður í svona 6–7%, allt frekar huggulegt miðað við það sem við áttum við að búa stuttu eftir hrun. Hæstv. fjármálaráðherra ber sér á brjóst og segir að þetta sé allt saman ljómandi gott. En þegar maður fer að skoða hlutina þá er heilmikið að. Það er dulið atvinnuleysi, fólksflótti til útlanda, fólk hefur farið í nám, fólk er að vinna erlendis en er búsett hér, er ekki að vinna á Íslandi en er ekki flutt og það fólk telst þá ekki atvinnulaust á Íslandi. Þetta er töluverður hópur, bæði læknar og aðrir, og þetta er alveg stórhættulegt.

Þetta hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs til framtíðar. Þetta fólk er með tekjur erlendis og borgar skatta þar en ekki hér á landi o.s.frv. En það sem er hættulegast í þessu öllu saman er sú stöðnun og kyrrstaða sem maður horfir upp á. Mér finnst að menn ættu virkilega að fara að horfa á það með miklum áhyggjusvip vegna þess að kyrrstaða og stöðnun geta leitt til ákveðinnar hringrásar, spírals sem menn renna niður og komast ekki aftur upp úr. Dæmi um það er til dæmis skortur á fjárfestingum, til að skapa atvinnu þarf fjárfestingar og helst hjá einkaaðilum. En ríkisstjórnin er stöðugt að senda merki til atvinnulífsins, akkúrat öndverð merki. Við höfum séð hvernig búið er að leika sjávarútveginn með mikilli óvissu og sívaxandi óvissu. Þetta er orðinn eins og haugasjór, það sem sjávarútvegurinn býr við, endalaus ágjöf alla daga. Kolefnisgjaldið sem var tilkynnt og svo dregið til baka var ekki til að bæta stöðuna fyrir erlenda fjárfesta. Þeir bara klóra sér í hausnum og spyrja: Hvað er eiginlega að gerast á þessu landi? Grímsstaðir á Fjöllum og Huang Nubo eru líka enn eitt dæmið um aðgerðir sem hrella menn. Mér finnst að það hefði mátt ræða við þennan mann og komast að því hvað hann langaði til og hugsanlega hefði mátt sveigja stöðuna þannig að allir væru sáttir. En það var ekki gert, það var bara keyrt einhvern veginn harkalega á þetta.

Það er stöðugt verið að gefa merki til atvinnulífsins, bæði innan lands og erlendis, um að menn ættu bara að hætta þessu, hætta að stunda atvinnulíf, hætta að fjárfesta o.s.frv. og sérstaklega til erlendra fjárfesta. Nú geri ég ekki ráð fyrir að ríkisstjórninni sé meðvitað illa við atvinnulífið eða fjárfestingar og ég geri ráð fyrir að margir hv. stjórnarliðar vilji gjarnan að hér sé fjárfest og hér skapist atvinna og fólk fái vinnu þannig að það geti borgað af lánunum sínum, borgað framfærslukostnað heimilanna o.s.frv. En einhvern veginn kemur þetta þannig út að stöðugt er verið að gefa merki til atvinnulífsins, bæði þess sem er starfandi og þess sem hugsanlega gæti orðið, um að menn eigi ekki að snerta við því að fjárfesta á Íslandi. Það er mjög hættulegt og mjög slæmt.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliða að breyta um stefnu, fara að tala fallega við þá sem vilja hætta fé sínu í atvinnulífinu og gæta sín á að vera ekki stöðugt að rugga bátnum, sérstaklega gagnvart sjávarútveginum. Menn ættu kannski að tala minna og vinna meira saman með sjávarútveginum sjálfum og koma með hugmyndir sem eru þannig að menn geti kannski sæst á þær en ekki alltaf að leita uppi deilur, það er eins og menn velji deilur ef þær eru í boði í staðinn fyrir að leita sátta um mál.

Þetta vildi ég segja um þessa fjárlagaumræðu. Mér þykir miður að klukkan skuli vera hálftvö eftir miðnætti þar sem ég er að ræða um fjárlögin sem eiga að marka stefnu ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár.