140. löggjafarþing — 28. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[02:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um hálfáttaleytið í kvöld fengu þingmenn ábendingar frá Öryrkjabandalaginu um þessa stöðu þannig að þetta er nokkuð sem öllum ætti að vera ljóst sem að þessum samningum í þessum málum komu.

Það er hins vegar athyglisvert að þingmenn sem hér hafa talað hafa ekki, a.m.k. ekki svo ég hafi tekið eftir eða heyrt, minnst á stöðu heimilanna eða fyrirtækjanna sem ekki hafa fengið úrlausn mála sinna þannig að þau geti staðið að þeirri hagvaxtaraukningu sem þarf að verða. Það hefur komið fram að þjóðhagsspáin er byggð á mjög veikum grunni, á aukinni einkaneyslu og framkvæmdum. Öll þekkjum við hvernig hefur gengið með framkvæmdirnar.

Ríkisstjórnarflokkarnir lögðu mikið á sig til að reyna að fá Icesave-samningana svokölluðu samþykkta sem hefði þýtt 30–40 milljarða vaxtagreiðslur fyrir Ísland. Svo hefur verið bent á að aðild (Forseti hringir.) Íslands að Evrópusambandinu gæti kostað 3–4 milljarða á ári (Forseti hringir.) með gjöldum inn í Evrópska fjárfestingarbankann og árgjöldum.