140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í gær lagði breski fjármálaráðherrann fram fjárlög næsta árs. Boðskapur ráðherrans var langt frá því bjartsýnn. Bretar sjá nú fram á lengri og alvarlegri kreppu en áður var búist við og Efnahags- og framfarastofnunin í París spáir efnahagslegum samdrætti í Bretlandi og fleiri ríkjum á næstu ári. Um skuldakreppu margra evruríkja þarf ekki að fjölyrða. Efnahagur Bandaríkjanna er bágborinn og hagvöxtur lítill og atvinnuleysi mikið.

Við þessar viðsjárverðu aðstæður í efnahagsmálum er nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga afgreiði fjárlög með ábyrgum hætti. Ríkisstjórnarmeirihluti Jóhönnu Sigurðardóttur er nú að ljúka þriðju fjárlögum sínum sem marka mikilvægt skref til sjálfbærra ríkisfjármála og niðurgreiðslu skulda án þess að vega að stoðum velferðarkerfisins. (Gripið fram í: … Icesave.)