140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[19:00]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Lög nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, hafa nú verið í gildi í rúm tvö ár. Samkvæmt 4. gr. laganna starfar eftirlitsnefnd með framkvæmd laganna. Störfum hennar á samkvæmt lögunum að ljúka nú um áramótin. Aðgerðir þar sem lögin kveða á um hafa tekið mun lengri tíma en áætlað var, m.a. vegna réttarágreinings sem verið hefur til meðferðar fyrir dómstólum. Það er ljóst að úrræðin og eftirlitsnefndin þurfa lengri líftíma og því hefur hv. velferðarnefnd lagt fram frumvarp þess efnis og hefur því verið dreift hér.

Í þriðju skýrslu eftirlitsnefndarinnar sem er vandað og skýrt plagg kemur margt fróðlegt fram. Þar kemur margt jákvætt fram. Starfsfólki fjármálafyrirtækja er hrósað fyrir lipurð og góðan vilja. Samræmi milli þjónustu við viðskiptavini innan hvers fjármálafyrirtækis er hrósað. 110%-leiðinni er hrósað svo langt sem hún nær — en já, það eru nefnilega en. Það eru allt of fáir sem nýta sér úrræðin sem í boði eru. Kynningu á þeim virðist ábótavant og fjármálafyrirtækin skilgreina úrræðin misþröngt, sýna mismikið frumkvæði, skrá ákvarðanir sínar ekki nógu vel og sinna ráðgjafarhlutverki sínu ekki nógu markvisst.

Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir fá ekki síður gagnrýni en bankarnir. Lífeyrissjóðirnir eru meira að segja kallaðir laumufarþegar af ýmsum sem tengjast eftirlitsnefndinni. Það virðist vera fullkomlega tímabært að þeir komi með beinum hætti að þeirri vinnu sem þeir hafa gert samkomulag um. Það má því ætla að lífeyrissjóðirnir hljóti að verða mjög liprir í vinnunni sem fram undan er við að leysa vanda þeirra sem eru með lánsveð og geta þess vegna ekki nýtt sér 110%-leiðina. Það hefur margt gott verið gert í skuldamálum heimilanna. 110%-leiðin virðist vera að gefa góða raun þó að hana þurfi að slípa til.

Eftirlitsnefndin hefur verið að gera góða hluti og virðist vera það aðhald sem hún þarf að vera fyrir fjármálafyrirtækin, því er nauðsynlegt að lengja líftíma hennar. Um það höfum við nú þegar lagt fram frumvarp.