140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[19:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Skýrsla þessi er fræðandi en um leið vissulega áfellisdómur yfir hvernig ákveðnir hlutir virka varðandi skuldaleiðréttingar eða skuldamál heimilanna, ég nefni heimilin sérstaklega. Það er misjafnt hvernig upplifun fólks er af 110%-leiðinni svo eitthvað sé nefnt.

Það þekkja allir skoðanir okkar framsóknarmanna hvað varðar almenna leiðréttingu á lánum. Það kann að vera að það sé orðið of seint að grípa til slíkra aðgerða, að tækifærið sem stjórnvöld hafi haft séu gengin okkur úr greipum en það er þó of snemmt að útiloka það algjörlega. Ég held hins vegar að kominn sé tími til að velta upp öðrum leiðum, mögulegum lausnum til að leysa þau mál sem heimilin standa frammi fyrir. Við sáum það í úttektum í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu að menn hafa jafnvel áhyggjur af því að fasteignaverð sé enn allt of hátt og eigi eftir að lækka. Það mun þá að sjálfsögðu hafa áhrif á mjög mörg heimili.

Ein af þeim leiðum sem hafa verið nefndar, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi ekki alls fyrir löngu, var að nota í raun skattkerfið til að koma til móts við fólk með miklar húsnæðisskuldir. Í mjög stuttu máli — hægt er að útskýra þetta eða fara betur yfir — gengur hugmyndin út á það að þeir sem eru að borga hluta eða borga af háum húsnæðislánum geti notað hluta af því eða hluta tekna sem fer í það, sem sagt að greiða niður lánin, þeir fái þá skattafslátt á móti. Með þessu greiðast lánin niður hraðar en ella.

Þetta er eitthvað sem ég vil koma hérna að í umræðunni því að ég vil hvetja ráðherra og fleiri til að skoða þessa hugmynd. Ég veit að ráðherra hefur verið reiðubúinn að hlusta og skoða þær hugmyndir sem hafa komið fram. Þetta er nánar útskýrt (Forseti hringir.) á vefnum, þessi pæling, þessi hugsun. Ég hvet til þess að hún verði skoðuð.