140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

þriðja skýrsla eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun.

[19:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa gefið sér tíma til að taka þátt í henni.

Það er ekki gaman að vera sífellt að ræða hérna aftur og aftur um skuldavanda heimilanna, en því miður er staðan sú að við höfum ekki leyst þann mikla vanda. Ég er á þeirri skoðun og hef verið það lengi að bankarnir sjálfir og fjármálastofnanirnar ættu að leggja meiri áherslu á samvinnu sín í milli með það að markmiði að leysa þessi mál á eigin vettvangi frekar en að bíða eftir því að stjórnvöld geri eitthvað. Fyrst við erum byrjuð að blanda okkur í málið verðum við að ræða það og reyna að fylgja þeim úrlausnum sem hafa verið samþykktar á þinginu, sama hvað okkur finnst um þær leiðir sem valdar hafa verið. Ég tel að okkur sé öllum hollt að reyna að taka þátt í þeirri umræðu á málefnalegan hátt.

Með því að bankarnir mundu sýna meira frumkvæði sjálfir mundu þeir spara sér að mínu viti mikla fjármuni vegna þess að þá þyrftu þeir ekki að eyða öllum þessum peningum í umboðsmann skuldara og fleiri slíkar stofnanir. Ég tel einfaldlega að það væri gáfulegri framkvæmd. Bankarnir velja sér að gera þetta með þessum hætti. Og þá eru spurningar á okkar borði sem ég vona að ráðherra geti svarað:

Mun ráðherrann beita sér í því augnamiði að reyna að knýja fram einhverjar leiðir varðandi lánsveðin? Er að vænta einhverra inngripa í það mál, vegna þess að þar hafa bankarnir, fjármálafyrirtækin, ekki náð neinum árangri?

Jafnframt kemur fram í máli ráðherrans að lausn þurfi að finna á skuldavanda bænda, við vitum það öll. Hvaða lausn er það? Bankarnir hafa ekki náð fram neinni slíkri lausn. Vandinn blasir við og kerfislæga villan, skekkjan, sýnir okkur það svart á hvítu í skýrslunni að sá sem rekur fyrirtæki og er bóndi og rekur sitt fyrirtæki á þeim vettvangi (Forseti hringir.) nýtur ekki sömu möguleika til afskrifta og aðrir sem reka önnur fyrirtæki.