140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[11:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Mig langar að grípa aðeins niður í ræðu ráðherra í sérstakri umræðu um málið þegar hann sagði að ástæðan fyrir því að geðlæknar og fleiri tækju málið upp núna væri sú að menn hefðu skipt um skoðun frá því fyrir 20 árum þegar þeir vildu alls ekki hafa þessa starfsemi hjá sér. Það er sem sagt í raun ekki flokkspólitík eins og við þekkjum en það er pólitík, um er að ræða mismunandi skoðanir einstaklinga.

Ef við förum aðeins yfir málið í fljótheitum hafa menn frá því að Sogn var stofnað 1992 eðlilega farið yfir það nokkrum sinnum. Þann 9. janúar 2006 skipaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Jón Kristjánsson fjögurra manna starfshóp til að gera úttekt á núverandi húsakynnum og vinna frumathugun á stækkun og endurbótum. Í hópnum voru tveir sérfræðingar úr ráðuneytinu, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar á Suðurlandi og yfirlæknir réttargeðdeildarinnar á Sogni.

Svo ég vitni í skýrsluna hélt hópurinn tíu fundi með starfsfólki og vistmönnum á Sogni auk þess sem farið var í þriggja daga kynnisferð til Danmerkur og Noregs, skoðaðar fjórar réttargeðdeildir, tvær í hvoru landi. Einnig var hópurinn í sambandi við yfirlækni réttargeðlæknastofnunar Svíþjóðar og fékk þar nytsamlegar upplýsingar.

Ekki þarf að rifja það upp hver aðdragandinn var, það var gert í Kastljósi nýlega þannig að ég ætla að sleppa því. En svo ég vitni aðeins í skýrsluna sem þó er bara fimm ára gömul, var farið þar yfir húsnæðismálin. Úrbætur hafa verið gerðar en of fá rými eru til staðar og engin fyrir bráðatilfelli. Deildinni hefur verið breytt þannig að tvö pláss eru fyrir bráðadeildir, þarna rúmast sjö manns með góðu móti en menn hafa miðað við að það þurfi að vera ellefu. Húsnæðinu var á ýmsan hátt ábótavant og sumu er ekki hægt að breyta vegna þess að ekki er hægt að breikka ganga eða þess háttar en búið er að laga ýmislegt af því sem sneri að því.

Aðstaða til náms, kennslu og líkamsræktar er allt komið í fínt lag sem og öryggismál þannig að það er sannarlega búið að gera mikið. Sett var út á vinnuaðstöðu starfsmanna en tekið var fram að hún hefði að mati starfsmanna aldrei hamlað starfi þeirra.

Niðurstaðan varð sú, svo hratt sé farið yfir sögu, að árangur er óneitanlega mjög góður. Gríðarlega mikið hefur verið fjallað um hvar þessi starfsemi eigi að vera. Niðurstaða vinnuhópsins, þessara fjögurra sérfræðinga, var sú að nauðsynlegt væri að hér á landi væri rekin réttargeðdeild. Menn vildu reyndar fara upp í 20 rými í heild af því að þeir bjuggust við að þörfin mundi aukast eins og gerst hefur á Norðurlöndum. Það var einnig niðurstaða starfshópsins að heppilegast væri að halda starfseminni áfram á Sogni með því að byggja við núverandi húsakost og endurbæta og endurinnrétta þau hús sem fyrir voru. Að því var stefnt á þeim tíma.

Vegna niðurskurðar, og það verðum við að spyrja hæstv. ráðherra um sem ber ábyrgð á þeim ákvörðunum, segja menn allt í einu: Nú skulum við færa starfsemina. Það hefur engu að síður komið fram að stofnkostnaðurinn við færsluna er 70–80 milljónir á næsta ári og áætlaður sparnaður — ég segi áætlaður af því að hann er ekki í húsi fyrr en sýnt hefur verið fram á hann — er eitthvað um 40 millj. kr. Það er því verið að tala um aukinn kostnað á næsta ári, á því erfiða rekstrarári 2012, upp á 30–40 millj. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geri sér grein fyrir því.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hann þekki ekki niðurstöðuna úr skýrslunni 2006. Æskilegt er, ef menn vilja gera endurmat á því, að búa til aftur faglegan hóp, fara yfir málið og kanna hvort það sé þá skynsamlegt að skipta um skoðun. Á það kannski að vera pólitískt mat? Þá er ég ekki að tala um flokkspólitískt mat heldur pólitískt mat forstöðumanna á hverjum tíma á því hvar slíkar stofnanir skuli niður komnar alveg óháð þeim árangri sem náðst hefur á Sogni. Ég held að það sé eitthvað sem við verðum að fara yfir.

Síðan er hægt að fara yfir ákveðna hluti í ferlinu eins og það þegar forstöðumaður geðsviðs Landspítalans fór austur á Sogn, kallaði starfsmenn saman og sagði eftir hálftíma eða klukkutíma: Ég hef engan tíma til að vera hérna en það á að færa stofnunina (Forseti hringir.) eftir nokkra mánuði. Það verður ekki neinn tími til umræðu um málið. Það fréttu það allir (Forseti hringir.) í fjölmiðlum einn, tveir og þrír. Málið hlýtur að þurfa meiri undirbúning en svo. Við verðum að fara varfærnislega í það, það var akkúrat það sem við ræddum áðan. Í þessum málaflokki þarf að fara sérstaklega varlega. Það hefur (Forseti hringir.) ekki verið gert og ég held að það sé skynsamlegt að fara ítarlegar yfir málið (Forseti hringir.) en stefnt er að í niðurskurðartillögum í heilbrigðismálum.