140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

réttargeðdeildin að Sogni og uppbygging réttargeðdeildar.

[12:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka þeim þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir ræður sem voru málefnalegar að stærstu leyti. Það er rétt sem fram hefur komið að þó nokkrir hafa fjallað um málið og stutt þá ákvörðun sem okkur virtist hafa verið tekin í miklum flýti og byggð fyrst og fremst á niðurskurðartillögum. Nú hefur ráðherra upplýst að hann hafi undir höndum upplýsingar frá því fyrr á þessu ári þar sem menn lögðu þetta til. Það hefði verið æskilegt að fá þá umræðu fyrr.

Það er hins vegar ekki rétt að allir í þessum geira séu sammála um að þetta sé til bóta. Formaður Geðlæknafélags Íslands telur til dæmis að starfsemin eigi að vera áfram á Sogni. Það er ekkert nýtt að innan þessa heilbrigðissviðs séu menn með skiptar skoðanir. Það eru einfaldlega geðheilbrigðislegar og fræðilegar pólitískar ástæður sem valda því að menn hafa mismunandi skoðanir á því hvort þetta sé skynsamlegt.

Staðreynd er að þessi starfsemi er búin að vera þarna í 19 ár. Margir hafa bent á, ekki síst í þessari sérfræðingaskýrslu frá 2006 sem ég hef vitnað dálítið í, starfsmenn og sjúklingar sjálfir, að þetta hafi gert þeim gott og hafi virkað vel. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að menn hendist ekki af stað og taki skyndiákvörðun vegna þess að þeir sem nú hafi forsvar fyrir þessum málaflokki vilji gera þetta. Eigum við aftur að færa þessa starfsemi til ef við fáum annan forstöðumann með aðra skoðun eftir fimm ár? Það getur ekki verið rétt. En ýmislegt getur auðvitað gerst á 20 árum.

Það var hins vegar ekki traustvekjandi að forstöðumaðurinn skyldi láta hafa eftir sér í fjölmiðlum á þessum tíma að svona starfsemi ætti ekki að reka úti í haga. Það er ekki traustvekjandi þegar slík rök virðast vera á borðinu vegna þess að staðreyndin er sú að með því að hafa þessa starfsemi á þessum stað hefur árangurinn orðið allverulegur. Af þessum 50 sem þarna hafa verið vistaðir, og 44 hafa útskrifast, hefur enginn komið inn aftur og það hlýtur að teljast mjög góður árangur. Það er líka staðreynd að fjöldinn af þeim sem þarna hafa farið út hefur verið í góðu samstarfi og sambandi við gæslumenn og stjórnendur, hafa komið þangað og eins verið í símasambandi.

Ég ítreka að lokum, frú forseti, að sú þingsályktunartillaga sem var lögð fram af 11 þingmönnum — að vísu er merkilegt að í gær greiddu fimm þeirra ekki atkvæði gegn því að selja Sogn og leggja peningana til Klepps. Þeir verða að eiga það við sína samvisku. Það er mikilvægt þegar svona alvarlegt mál er til umfjöllunar að við förum varlega og göngum faglega til verks. Það er á ábyrgð ráðherrans (Forseti hringir.) að svo sé gengið um þetta að sem flestir séu sáttir við niðurstöðuna. Ég held að við ættum að taka upp þessa þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að við frestum þessu um eitt ár. Það er augljóst að það sparast ekki peningur á næsta ári, það er aukinn kostnaður og (Forseti hringir.) það er skynsamlegt að taka eitt ár í það og taka þá faglega ákvörðun, hver sem hún síðan verður.