140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

306. mál
[12:49]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður heldur því fram að ég hafi farið bratt í það að svara þessari umsögn. Ég vitnaði í tiltekna þætti í kostnaðarumsögninni og ég hlýt að mega sem ráðherra málaflokksins og sem þingmaður á þingi sem styður þetta kerfi svara þeim fullyrðingum sem ég tel vera rangar sem þar koma fram. Ég hlýt líka að mega svara matskenndum fullyrðingum úr kostnaðarmatinu og ég hlýt líka að mega svara því þegar koma beinlínis fram pólitískar skoðanir á því með hvaða hætti svona löguðu eigi að vera fyrir komið hér á landi. Það er okkar vinna, ekki annarra, ekki þeirra sem eru að leggja kostnaðarmat á svona frumvörp. Þess vegna varð ég að standa hér og svara þessu og án þess að ég fái við það ráðið er þetta lagt fram sem fylgiskjal með því frumvarpi sem ég mæli fyrir, þannig að ég hlýt að verða að svara þessu. Ég tel ekki að ég hafi farið bratt í nokkurn skapaðan hlut. Ég las tilvitnaðar setningar og hlýt að hafa leyfi til að svara þeim.

Virðulegi forseti. Frumvarpið var að sjálfsögðu kynnt fjármálaráðherra og ríkisstjórn og ég gerði við þetta verulegar athugasemdir á þeim vettvangi og gerði það við fjármálaráðherra. Hann hefur það hins vegar til síns máls í því að hann vill ekki segja fjárlagaskrifstofu sinni til. Hún þarf að hafa ákveðið frelsi í störfum sínum til að koma sínu mati á framfæri enda væri það óeðlilegt að fjármálaráðherra hefði puttana í því með hvaða hætti frumvörp eru metin. Það er afstaða hans í málinu og ég virði hana. Þess vegna gerist það að ég verð að svara því hér með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Starfsmenn mínir í iðnaðarráðuneytinu reyndu líka að koma öðrum upplýsingum til starfsmanna fjármálaráðuneytisins en það skilaði ekki öðrum árangri en þeim að þetta kostnaðarmat stóð þrátt fyrir margar athugasemdir.